Sitt lítið af hverju

Stundum er ég ósköp ánægður með að klára uppfærslur á óperum sem eru kannski ekki fullkomlega að mínum smekk, en svo kemur að því að ég gæti hugsað mér að syngja enn fleiri sýningar á öðrum; þessi Rigoletto uppfærsla sem ég er að fara að kveðja á morgun er ein af þeim síðarnefndu. Ég lít náttúrulega út einsog skrímsli með allt þetta sílikon framaní mér, en ég er búinn að njóta þess svo gjörsamlega að fá tækifæri til að þróa og þroska með mér þetta hlutverk krypplingsins að það verður óttalega sorglegt að kveðja kauða. En ég geri það á morgun. Síðasta sýningin af níu í þessari uppfærslu frá Nancy í samvinnu við Caen, en hér í Caen kláruðum við aðra sýningu hérna í gærkvöld og þriðja og síðasta sýningin er á morgun. Eftir því sem liðið hefur á sýningarnar hefur mér tekist að syngja rulluna betur og betur, þannig að núna er ég miklu sáttari við hvernig mér tekst upp heldur en ég var strax eftir frumsýninguna. Ég þarf að hætta einmitt þegar mér finnst ég vera rétt að byrja að gera þetta almennilega!

En svo skemmtilega vildi til að skömmu eftir síðustu sýninguna í Nancy var ég kallaður til Hamborgar til að hlaupa í skarðið fyrir kollega minn sem veiktist undir lok æfingatímabilsins á - einmitt - Rigoletto. Auðvitað var uppfærslan í Hamborg gjörólík því sem ég hafði verið að gera í Nancy, en sem betur fer var nægur tími til að æfa lítillega með aðstoðarleikstjóranum, sem hafði reyndar aldrei hitt leikstjórann sjálfur, en hann kunni uppsetninguna vel, svo við gátum undirbúið þetta sæmilega. Það versta við svona innstökk er að maður hittir ekki kollegana sem maður syngur með fyrr en á sviðinu með áhorfendur og hljómsveit og ljós og allt stressið líka, svo það getur verið ansi strembið. Það hjálpaði auðvitað að hlutverkið var ferskt í minninu, en þar eð uppfærslan var svo ansi öðruvísi, meiri symbólík, þurfti ég að endurhugsa allar hreyfingar og staðsetningar á sviðinu, sem var mjög spennandi. Í Nancy og hérna í Caen er kryppan í frakkanum sem ég klæðist við hirðina og svo klæði ég mig úr honum og kryppan hverfur, en í Hamborg er það sami búningurinn allan tímann og kryppan er á sínum stað.

Í fyrradag fór ég með kollegunum á eina af ströndunum sem bandamenn hertóku fyrstar í áhlaupinu Overlord hinn örlagaríka 6. júní 1944, D-day, og það var auðvitað mikil upplifun að sjá leifarnar af bryggjunum sem voru byggðar af miklu hugviti á sex dögum og notaðar eftir árásina til að flytja hergögn og byrgðir til víglínunnar sem færðist hægt og sígandi austur og suður á bóginn. Kirkjugarðarnir þarna minna á mannfórnirnar, en auðvitað voru þær smávægilegar miðað við mannfallið á austurvígstöðvunum, í umsátrunum um Leningrad og Stalingrad sérstaklega. Þegar maður er í návígi við grimmdarlega sögu tuttugustu aldarinnar kemur fátt annað uppí hugann en einfaldlega: ekki stríð! Daginn fyrir frumsýninguna fórum við til Mont St. Michel, sem er sérkennilegur og feykna fallegur staður. Það hefði verið gaman að sjá almennilegt flóð, en háflæðið þennan dag var svo lítið að maður sá varla til sjávar; ströndin er bara sendin, löng og flöt. Klettur á miðri ströndinni, flatri svo langt sem augað eygir og á honum hefur í gegnum aldirnar verið byggt mjög fallegt og áhugavert klaustur, sem var líka byggt þannig að þetta er virki um leið. Pílagrímar koma þangað á pílagrímsförinni suðurá bóginn til Santiago de Compostello og einmitt þennan dag komu um 200 prestar víðsvegar að til messu í klaustrinu og gengu síðasta spölinn berfættir á sandinum.

Í millitíðinni milli þess að hafa sungið Rigoletto í þremur óperuhúsum byrjaði ég æfingar í Cardiff á Spaðadrottningunni eftir meistara Tsjækovskíj. Þetta er í þriðja sinn sem ég syng í þessari uppfærslu, en fyrst var það í Brussel og svo í San Francisco. Þegar ég söng sömu rulluna í Antwerpen og Gent var það í annarri uppfærslu. Upphaflega var ætlunin að í hlutverki Lisu yrði Catrin Wyn-Davis, en svo óheppilega vildi til að hún rifbeinsbraut sig á sýningu á Pelleas et Melisande skömmu áður en æfingarnar byrjuðu í Cardiff, svo að þrátt fyrir einlægan ásettning hennar að reyna að syngja rulluna í fyrsta sinn reyndist það einfaldlega ómögulegt að styðja við háa legu hlutverksins, svo í hennar stað kemur rússnesk sópransöngkona sem söng þessa uppfærslu með mér í Brussel.

Óperuheimurinn er alþjóðlegur og þjóðerni kollega minna hérna í Caen eru til vitnisburðar um það. Gilda er rússnesk, hertoginn er ítalskur, Sparafucile er franskur, Maddalena er armensk, Monterone er belgískur, Marullo er hálf moldavskur, kvart úkraínskur og kvart kóreanskur, Borsa er enskur, uppalinn í Frakklandi, Ceprano er franskur af armensku bergi brotinn, frú Ceprano er frönsk, Giovanna er pólsk, paggio er kóreönsk, hljómsveitarstjórinn er ítalskur, leikstjórinn er hálf frönsk, hálf írönsk og leiktjalda og búningahönnuðurinn er þýsk. Og þá er ég ekkert að nefna kórsöngvarana eða hljómsveitarmeðlimina! Gaman að svona fjölbreytni!


Terminator krypplingur!

rigoletto nancy 2009 030Þriðja sýningin á Rigoletto hérna í Nancy var í gærkvöld og sú fjórða af sex verður annað kvöld. Ég var svo óheppinn að fá leiðinda sýkingu í hálsinn á æfingatímabilinu, svo ég var hreint ekkert viss um að ég myndi komast í gegnum sýningarnar klakklaust, en sem betur fer var ég orðinn sæmilega sprækur fyrir frumsýninguna og smátt og smátt hafa sýningarnar gengið betur og betur og líðanin skánað smátt og smátt.

Leikstjórinn, Mariame Clement, ákvað að byggja sviðshugmyndina og alla umgjörð á hinni klassísku kvikmynd meistara Stanley Kubrick, Clockwork Orange. Það leiðir óhjákvæmilega af sér að ofbeldið sem er að finna í upprunalega verkinu er magnað margfalt. Karlhópurinn sem er uppistaðan í hirð hertogans er gríðarlega grimmur og óforskammaður og þeir, til dæmis, nauðga og myrða síðan Giovönnu; í lokin kemur hertoginn útúr herbergi Maddalenu með alblóðugar hendurnar eftir að hafa myrt hana. Hlutverkið mitt er Rigoletto og í stað þess að hann sé krypplingur klæðist hann einfaldlega búning sem er með kryppu. Hirðin heldur að hann sé krypplingur, en þegar hann hverfur heim á leið, klæðir hann sig úr kryppunni, en hinsvegar er hann allur ummyndaður í framan; með gríðarlegt ör á vinstri vanganum, einsog eftir brunasár, og útfrá munninum er einsog örið myndi bros sem hann losnar aldrei við. Hugmyndin að þessu er sótt í bók Victors Hugo "L'homme qui rit" í stað þess að halda fullri tryggð við upphaflegu bókina hans "Le Roi s'amuse" sem óperan er byggð á. Sem betur fer er uppistaðan í sminkinu silikon, svo þegar ég opna munninn til að syngja er þetta síður en svo til vandræða. Áhorfendur eru í nokkurra metra fjarlægð, svo þeir sjá ekki allan ófögnuðinn í öllum sínum smáatriðum, en á fyrstu æfingunum sem ég hafði sminkið framaní mér urðu nokkrir sviðsmennirnir gjörsamlega sjokkeraðir þegar ég mætti þeim á sviðinu og/eða á göngunum í leikhúsinu!

Place_Stanislas_Op%C3%A9ra_211207[1]Nancy er þónokkuð sjarmerandi borg og torgið sem óperuhúsið stendur við, Stanislas torg, er ein af gersemum álfunnar. Við torgið eru byggingarnar ekkert sérstaklega háreistar, en allar í sama stíl; reistar fyrir tilskipun hertogans af Lorraine Stanislas Leszczyński, en hann var tengdapabbi Lúðvíks XV, og byggðar milli 1751 og 1755 af arkítektinum Emmanuel Héré. Torgið var nefnt "Place Stanislas" árið 1831 og er núna friðað undir merkjum Unesco. Myndin hérna til hliðar er af framhlið óperuhússins og vinstra megin við það er hlið inní Pépinière garðinn þar sem er meðal annars að finna lítinn dýragarð, kaffihús og allskyns leiktæki. Um helgar spila menn gjarnan fótbolta á þartilgerðum velli í garðinum og fótstígarnir eru alltaf fullir af spásserandi fólki þegar vel viðrar (sem reyndar hefur ekki gerst nógu oft meðan ég hef verið hérna í þetta sinn!). Í eldri hluta borgarinnar getur maður svo fundið fádæma góða veitingastaði þar sem er hægt að bragða á gómsætum sérréttum héraðsins í bland við standarda frá öðrum löndum og heimsálfum. Mér hefur liðið alveg prýðilega og þægi það með þökkum ef mér yrði boðið að syngja hérna aftur.


Kölski kvaddur og við tekur krypplingurinn hefnigjarni

Faus bal 1305Síðasta sýningin á Faust-bal sem ég tek þátt í hér í Madrid verður á morgun og þar með kveð ég suðrið sæla með sól og blíðu og held norður til Nancy til að halda áfram æfingum á Rigoletto. Ég hafði hugsað mér að njóta frídaganna milli sýninganna hér til að spássera í sólinni og skrifa eitthvað þvaður þess á milli, en strax eftir frumsýninguna þurfti ég að horfast í augu við harðann veruleikann, að ég þyrfti að fljúga milli sýninganna hér til að hefja æfingar á næstu óperuuppfærslunni sem ég tek þátt í; Rigoletto. Gamli umbinn minn hafði nefnilega ekki gengið betur en svo frá hnútunum þegar hann átti að semja um að ég fengi leyfi til að vera um kyrrt hérna í Madrid milli sýninganna og vera ekkert að þeytast til Nancy þess á milli, að honum láðist að láta mig vita af því að það hafi orðið að samkomulagi milli hans og listræna stjórnandans í þessu ágæta franska óperuhúsi að ég skyldi fljúga milli sýninganna og æfa á frídögunum krypplinginn hefndarþyrsta. Þetta frétti ég fyrst á mánudaginn; daginn áður en æfingarnar skyldu hefjast í Nancy, klukkustund áður en ég skyldi vera mættur til að láta sminka mig fyrir sýningu númer tvö á Faust-bal. Stressið við að finna flugmiða morguninn eftir og græja allt það sem græja þurfti var auðvitað hábölvað, en einhvernveginn reddaðist þetta og allir eru sáttir við sinn hlut núna, þó svo ég verði að viðurkenna að þessa síðustu viku hef ég sennilega sofið að meðaltali 3 klukkustundir á sólarhring. Ég söng mína aðra sýningu á mánudagskvöldið hérna í Madrid, æfði í Nancy á þriðjudaginn, söng sýningu í Madrid á miðvikudaginn, æfði í Nancy á fimmtudag og föstudag og söng svo næstsíðustu sýninguna hérna í Madrid í gærkvöld. Og í dag gat ég loksins spásserað einsog ég hafði ætlað mér, laus við að þurfa að vera að keppa við klukkuna um að komast útá flugvöll, í lestina, í rútuna, á æfinguna, í leikhúsið, á réttum tíma og vera í nógu góðu standi til að geta sungið almennilega. Photo020Ég rölti mér einfaldlega útí Retiro garðinn og naut þess að eiga frídag; loksins! Einn af tæknimönnunum í leikhúsinu benti mér á að þar væri að finna styttu af fallna englinum og þar eð ég byrja sýninguna með flennistóra svarta vængi og sem fallni engillinn Mefistofeles gat ég ekki stillt mig um að taka mynd af þessari frummynd minni!

Faust-bal hefur verið tekið þónokkuð vel og þvert á minn grun um að áhorfendur myndu halda sig frá þessum sýningum hefur aðsóknin verið mjög góð og móttökurnar með ágætum. Gagnrýnendur hafa verið með ólíkindum jákvæðir; auðvitað hafa þeir haft skiptar skoðanir á bæði tónlistinni og textanum, en ég hef fengið mjög jákvæða umfjöllun, sem að sjálfsögðu gleður mitt hégómlega hjarta! Þetta er ópera um lækninn Faust-bal og hvernig kölski reynir að freista hennar meðan guð leggur til að hún velji hið góða þess í stað, sem hún og gerir. Hún nýtur liðsfylgis Amazonu, sem er einskonar lesbískur kvenhermaður og þeirra kynni leiða til að Fásta fæðir klónað barn sem Margarito drepur. Margarito er ástfanginn af Fástu, en hann er aggressívur amerískur herforingi og endar óperan á að hann nauðgar henni og drepur, án þess að hún gangist við að villast af vegi góðmennskunnar. DSCF5040DSCF5043Undir lokin geng ég í hlutverki kölska um allan salinn og í gærkvöld vildi svo skemmtilega til að sérstaklega trúuð eldri kona æpti og hrópaði á mig að hunskast í burtu, rauðbölvaður skrattinn, og láta þessa góðu og hreinu stúlku í friði. Þegar eitthvað viðlíka gerist veit maður að áhorfendur eru vel með á nótunum og trúa því sem maður gerir! Rétt fyrir frumsýninguna kom einn af kórtenórunum og tók myndir af bæði mér og félaga mínum sem er í hlutverki guðs og ég skelli hér með myndunum af okkur.

Rigoletto tekur svo við og uppsetningin verður öll í anda Clockwork Orange. Búningarnir verða hvítir og harkan og ofbeldið í spilltu töffarasamfélagi ræður ríkjum. Rigoletto er ekki krypplingur, heldur afmyndaður í framan vegna örs sem lætur hann líta út fyrir að vera síbrosandi (frummynd Jokersins í Batman sögunni og hugmyndin tekin úr annarri sögu Viktors Hugo; Maðurinn sem hlær) og kryppan er eitthvað sem hann notar sem atvinnutæki við hirðina og tekur af sér áður en heim til dótturinnar Gildu kemur. Ég er spenntur að sjá hvernig útkoman verður og skrifa eitthvað meira um þetta þegar nær sýningunum dregur, nú eða eftirá, sjáum bara til.


Snjór og meiri snjór!

Snjókoman í Madríd séð frá listamannainnganginum í Teatro RealÍ morgun vaknaði ég við að sjá þökin á húsunum í nágrenninu undir blíðlegri hvítri ábreiðu fyrstu snjóa ársins í Madrid og undir hádegi var búið að loka flugvellinum hérna. En satt best að segja hefur það lítil sem engin áhrif á það sem ég er að fást við. Það er nefnilega komið að því að takast á við heimsfrumsýningu - loksins. Ég er búinn að vera að undirbúa mig síðustu vikurnar og mánuðina fyrir æfingarnar sem voru að hefjast hérna í Madrid núna í þessari viku á glænýrri óperu - Faust-bal - þar sem ég er í hlutverki undirheimaherrans, fallna engilsins, Mefistófeles. Og þetta er allt farið að taka á sig hina bestu mynd og það verður spennandi að sjá hvernig fer. Hingaðtil er lítið um uppsetninguna að segja, svo ég læt bíða betri tíma að gefa frekari skýrslu ...


Verkföll útum allt!

Ellen RissingerVerkalýðsfélög hljóðfæraleikara við óperuhúsin í Þýskalandi standa nú í verkfallsaðgerðum og afleiðingin er sú að sýningar fara fram í mörgum tilfellum við píanóundirleik í stað hljómsveitarinnar í gryfjunni. Í Stuttgart var Eugene Onegin til dæmis frumsýnd við píanóundirleik. Á laugardaginn var Fidelio eftir Beethoven sýnd hér við píanóundirleik og svo á sunnudaginn lenti ég í því að við fluttum Lady Macbeth frá Mszensk án hljómsveitarinnar. Beethoven sleppur eiginlega fyrir horn, en Schostakovitsj er einhvernvegin svo flókinn og maður þarf svo átakanlega á hljómsveitarhljóminum að halda að okkur fannst við eiginlega vera hálf berrössuð. Við vonum öll að sýningin á morgun verði með hljómsveitinni. Þar sem maður er orðinn vanur gríðarlega þykkum hljómi og litskrúðugum frá hljómsveitinni var ekkert meira en harður ómur frá flyglinum. Eiginlega hundfúlt að þurfa að lenda í þessu. Um það bil helmingur áhorfenda, sá hluti þeirra sem ekki yfirgaf óperuhúsið í fýlu vegna þessa óréttlætis að vera ekki boðið uppá nema hluta af þeirri upplifun sem þeir bjuggust við, var gríðarlega þakklátur fyrir okkar framlag, og þá helst framlag píanistans okkar, Ellen Rissinger, sem er nú orðin skærasta stjarnan meðal starfsmanna hússins. Blaðamenn hafa þessa vikuna setið um að taka við hana viðtöl og hún leikur að sjálfsögðu á alls oddi. Oftast eru undirleikararnir í þeirri aðstöðu að fá sjaldnast almennilegt hrós og þurfa að sitja við tímunum saman og spila misspennandi æfingar án þess að fá almennilega að láta ljós sitt skína. En núna skín stjarna Ellenar skært!

Vetrarferð í Óperuna!

Þó svo félagi Smári sé auðvitað ekki ábyrgur fyrir fjármálafíaskóinu sem skekur stoðir efnahagslífsins um þessar mundir, hvað svo sem hann leyfir sér að grínast með það, er alveg ábyggilegt að hann getur skilað af sér frábærum tónleikum í kvöld og það er um að gera að auglýsa þá svo vel að þörf verði á að endurtaka þá vegna gríðarlegrar aðsóknar! Ég kemst ekki, er hundfúll heima í Frans í leiðinda kvefpest, en það ættu allir sem geta komist úr húsi og eru staddir á Stór-Reykjavíkur svæðinu að drífa sig niðrí Ingólfsstræti og njóta flutnings þessara ágætu listamanna, Jóhanns Smára Sævarssonar bassasöngvara og Kurts Kopecky píanóleikara og aðalstjórnanda Íslensku óperunnar á Vetrarferð Schuberts.

Toi, toi, toi - og gangi ykkur félögum allt í haginn.

Kveðja

Tommi


mbl.is Axlar ábyrgð á kreppunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lady Macbeth í Düsseldorf

DOR Lady 02Þegar æfingar hafa verið kaótískar og lítið um rennsli á öllu stykkinu sem maður er að æfa getur oft verið gott að renna nokkrum sinnum í lokin, en í þetta sinn er svoleiðis lúxus ekki fyrir að fara hérna hjá okkur í Düsseldorf. Við höfum ekki fengið eina einustu æfingu þar sem allt hefur gengið snurðulítið fyrir sig, svo maður er pínulítið kvíðinn fyrir hvort okkur eigi eftir að takast að komast frá frumsýningunni stórslysalaust. Og verkið er flókið. Hérna erum við að setja á svið óperuna Lady Macbeth frá Mzensk héraði eftir Dmitri Shostakovitsj og það er í annað sinn á þessu ári hérna hjá þessu kompaníi, en í vor var þessi uppfærsla sett upp í Duisburg, sem er hitt húsið sem Deutsche Oper am Rhein rekur.

Í kvöld fáum við nú samt vonandi fullt rennsli, enda síðasta æfing fyrir generalprufuna sem verður á morgun og svo frumsýnum við á föstudagskvöldið. Það verður nú að viðurkennast að karlfauskurinn sem ég leik er bölvað ómenni og það er óvíst að áhorfendur eigi eftir að kenna í brjósti um hann þegar tengdadóttirin eitrar fyrir honum með rottueitri sem hún setur útí uppáhalds svepparéttinn hans og drepur hann þannig. Hann engist um í sárustu kvölum, en maður hugsar nú eiginlega með sér að farið hafi fé betra og þetta sé bara gott á hann, helvítið af honum! Samfarir milli ansi margra karakteranna eru gríðarleg þungamiðja þessarar uppfærslu en minn maður verður útundan, án þess að hann hafi nokkurn skapaðan hlut um það að segja, og honum er það lítið að skapi. Honum finnst sonurinn ekki standa sig nógu vel í að fullnægja frúnni og vill ólmur og uppvægur komast í rúmið með tengdadótturinni, en þegar hann ætlar að láta til skarar skríða uppgötvar hann að þá, bara rétt í því, hafði hún átt í feikna samförum með vinnumanninum nýja í verksmiðjunni hans! Hann refsar kauða, en tengdadóttirin sér þá við karlinum og drepur hann rétt sí svona með sveppunum sínum! Kollegarnir mínir Viktoria Safronova og Sergej Naida eru hérna á myndinni ósköp vel afslöppuð eftir velheppnaðar samfarir Katarínu og Sergej.

Photo023Fyrir nokkrum árum síðan tók ég þátt í uppfærslu í Trondheim í Noregi á óperunni Eysteinn av Nidaros sem Sverrir konungur og núna í sumar var aftur hóað í mig til að vera með aftur. Að þessu sinni var uppfærslan önnur, þótt óperan hafi verið sú sama, en það var mjög gaman að koma aftur til baka til frænda okkar þarna í Þrándheimi og njóta sumarblíðunnar, þegar hennar naut við. Í þetta sinn var ég ekki í víkingaklæðum heldur íklæddur "kamouflage" búningi að skæruliðahætti og ein af innkomum mínum á sviðið var í gömlum amerískum jeppa frá síðari heimstyrjöldinni þar sem á eftir mér hlupu skæruliðarnir mínir öskrandi og æpandi eftir að hafa drepið alla sem í veginum höfðu verið og losnað við alla mótstöðu við Sverri konung. Óperunni lauk svo með pomp og prakt inní kirkjunni einsog reyndar síðast líka.

Photo028Ég fór svo í prufusöngferð í ágúst, fyrst til Þýskalands og svo niður til Ítalíu áður en ég flaug til Íslands að byrja æfingar fyrir uppsetninguna okkar á Cavalleria rusticana og Pagliacci í Íslensku óperunni, sem er nýafstaðin. Smelli með mynd af mér sem Lúba tók af mér í San Remo.

Jæja, ég þarf að drífa mig inní óperuhús svo ég sendi bara kæra kveðju heim og vona að allir heima hafi það gott, þrátt fyrir 18% stýrivexti og almenna fjárhagserfiðleika. Í mínum huga hljómar bara klausan okkar í skemmtanabransanum "the show must go on"!!!


... sweet home ...

Þá erum við loksins komin heim eftir allt þetta flakk síðustu mánaðanna og núna er bara framundan grassláttur og almenn aðhlynning að draslinu okkar hérna í Frans. Sprettan er búin að vera feiknagóð, svo maður þarf að halda sig allan við að rúlla sláttuvélinni útum allt öllum stundum.

Keyrslan frá Maribor var stórslysalaus, einsog við var að búast, sem betur fer, en það kom mér svolítið á óvart hvað landslagið þarna í Slóveníu er magnað. Það er ekkert mikið um há fjöll, samt svolítið, en þarna eru hæðir eftir hæðir eftir hæðir. Svolítið svipað og hérna hjá okkur í Provence, en bara margfalt hæðóttara - ef maður getur sagt það. Litbrigðin í náttúrunni voru undurfalleg; allt frá dökk grænum furutrjám og útí ljósgræna, nýlaufgaða aska - sýndist mér (segir maður kannski asktré? - nei, aska, held ég, þó ekki þeir sem maður getur borðað úr - kannski er þetta allt önnur trjátegund - ég er svoddan auli í þessum trjágreiningum). Ég get ímyndað mér að haustin þarna austurfrá séu stórkostlega falleg - með öllum rauðu og gulu litbrigðunum sem bætast þá við.

Hérna hjá okkur hefur Ljúba verið iðin við að gróðursetja ávaxtatré og annað grænt góðgæti, en svo virðist sem villisvínin hérna hafi áttað sig á hvernig hægt er að troða sér undir girðinguna á nokkrum stöðum, með þeim afleiðingum að þau hafa étið töluverðan slatta af rótum og einhverju fleiru - og rótað upp útum allt hjá okkur. Kannski voru þetta ekki bara villisvínin, heldur líka skjaldbökur, sem við höfum af og til staðið glóðvolgar að því að háma í sig melónur og salatblöð. Þær eru friðaðar hérna og maður verður bara að reyna að byggja einhverskonar tálma fyrir þær, sem þær geta samt skriðið undir. Það dugar samt ekkert gegn villisvínunum - þau ryðjast í gegnum hvað sem er og láta einsog þau eigi þetta allt saman!


... og meira frá Maribor


Cosi fan tutte - drengirnirÞriðja sýningin mín á Cosi fan tutte hérna í Maribor er í kvöld og síðasta sýningin er svo á föstudaginn. Okkur hefur verið vel tekið, enda uppfærslan stórskemmtileg og þó svo Slóvenarnir skilji ekki hvert orð er gamanleikurinn svo vel sviðsettur að áhorfendurnir hlægja alltaf á réttu stöðunum og hafa mikið gaman af veseninu á sviðinu. Leikstjórinn er belgískur og heitir Guy Joosten; stórfínn leikstjóri sem ég hef nú unnið fjórum sinnum með og hef alltaf jafn gaman af. Hann leikstýrði meistara Kristni í uppfærslunni á Rómeó og Júlíettu á Metropolitan óperunni og er að gera góða hluti víðsvegar um heim. Hann er einn af þeim sem koma til starfa á fyrsta degi æfinga með fullkláraða hugmynd um hverja einustu senu í verkinu og er ansi harður á að hafa hlutina einsog hans eigin hugmyndir segja til um, en ef fólk er klárt og getur betrumbætt hlutina er hann sveigjanlegur og alltaf tilbúinn til að breyta og bæta. Ég hef skellt hérna með myndum af okkur strákunum saman og svo af stelpunum líka. Sviðsmyndin er hótelanddyri og hugmyndin er að þetta sé hótel í Napólí, þar sem í bakgrunninum má sjá útlínur Vesúvíusar - og þetta er að gerast í nútímanum, kannski á áttunda áratugi síðustu aldar.

Það er erfitt að fastnegla hvað hérna í Maribor er sérstaklega slóvenskt. Ef maður les sér til um sögu staðarins, til dæmis á Wikipedia, er greinilegt að lengst af hafa þýskumælandi herrar ráðið hér lögum og lofum; um 1920 voru 80% Mariborbúa þýskir, en eftir síðari heimstyrjöldina voru þjóðverjarnir flæmdir í burtu og slóvenarnir tóku ráðin. Samt er þýskan það tungumál sem maður kemst best af með í búðum hérna í Maribor. Mér sýnist á alþýðumenningunni að fólk hér sé ótrúlega svipað austurríkismönnum að mörgu leiti. Hérna eru á mörgum sjónvarpsstöðvum í gangi svipuð þjóðlagaprógrömm og má finna í alpahéruðum Þýskalands, Austurríkis og Sviss. Óaðfinnanlega brosmilt fólk spilandi og syngjandi þessi líka mishressilegu hopp-lalla lög með harmónikkur og tírólaklæði. Karlmennirnir ægilega penir og fínir og stelpur með gífurlega ljóslitað hár og barmastórar í stíl stelpnanna sem frægar eru fyrir að þjóna á Oktoberfest.

Cosi fan tutte - stúlkurnarFjallið Pohorje gnæfir yfir borgina og þar eru frábærar skíðabrekkur. Þegar ég kom í lok mars var enn svolítill snjór en hann er farinn núna. Mér skilst að hér séu Slalom mót haldin í tengslum við heimsmeistaramót kvenna á skíðum og svo er verið að reyna að markaðssetja brekkurnar sem gæða skíðasvæði fyrir túrista. Verðlagið hérna er ekki hátt, svo það gæti vel borgað sig að skoða að koma hingað í skíðafrí.

Ég ætlaði að fara í sund í fyrstu vikunni minni hérna, en varð fyrir miklum vonbrigðum með að flestar laugarnar eru þannig gerðar að maður getur einfaldlega ekkert synt. Fólk liggur bara einsog í heitu pottunum og lætur loftbólunuddið sem er útum allar laugar gæla við sig. Þegar ég sá skiltið fyrir gufubaðið ákvað ég að slá til og fara í gufu. Mér til mikillar undrunar var ég skikkaður til að afklæðast gjörsamlega áður en í gufuna væri farið - engar sundskýlur þar. En það var erfiðara að venjast því að karlar og konur voru saman í gufunni - sem er auðvitað ágætt útaf fyrir sig - en getur orðið óþægilegt þegar stórglæsilegt fólk af gagnstæðu kyni er þar allt um kring!

Það eru ekki nema nokkrir dagar eftir af dvölinni hérna og ég held ég eigi eftir að hugsa til fólksins hérna með söknuði. Þessir gömlu Júgóslavar eru mjög almennilegt fólk. Lífsgæðakapphlaupið er að vísu að byrja að leggja þá undir sig, en þeir halda enn margir hverjir í gömlu sósíalísku gildin, sem ég held að sé gott. Vonandi tekst þeim að viðhalda þeim sem lengst. 


Cosi fan tutte í Maribor

Maribor 3Þá er ég kominn til Maribor í Slóveníu til að æfa og syngja hlutverk Don Alfonso í óperunni Cosi fan tutte eftir Mozart. Það passar kannski að senda kærar kveðjur og heillaóskir til óperustúdíósins í Íslensku óperunni, en þar syngur kollegi minn Þorvaldur Þorvaldsson sama hlutverkið og ég er að fást við hérna og ég efast ekki um að það verði feiknagott hjá honum.

Ég tók að mér svo mikinn söng í þessari heimaveru núna rétt fyrir páskana að ég hefði haft gott að svolítilli afslöppun, en það fór svo að ég þurfti að fljúga hingað til Slóveníu strax á annan í páskum og hef verið á æfingum á hverjum degi síðan. Er sem betur fer í fríi í dag og naut þess að fara í labbitúr uppá hæð sem gnæfir yfir bæinn og baðaði mig í sólinni. Heiður himinn og sæmilega heitt, svo þetta var alveg stórfínt. Góður hvíldardagur.

Maribor 2Hér við ánna Drava er svo sérkennilegur vínviður. Þetta ku vera elsti vínviður í heimi og er gríðarlega stór - þekur framhlið eins af gömlu húsunum við ánna og Mariborbúar eru mjög stoltir af þessum sérstaka vínvið. Á myndinni hérna við hliðina er hægt að sjá herlegheitin - á húsinu vinstra megin við miðju. Ég er annars búinn að smakka nokkur af vínunum hérna og er alveg ófeiminn við að viðurkenna að þau eru bara dágóð. Sum hvítvínin eru sérstaklega góð og rauðvínin eru prýðileg.

Segi kannski seinna frá hvernig þessi uppfærsla á Cosi fan tutte leggst í mig. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband