Kominn á klakann - eftir langa fjarveru

Ég er kominn til Íslands og byrjaður að æfa í uppfærslu Íslensku óperunnar á La traviata eftir Giuseppe Verdi. Þar er ég að takast í fyrsta sinn á við hlutverk Giorgio Germont og hlakkar mikið til að sjá hvernig þetta fer allt saman. Meðsöngvararnir í uppfærslunni eru feiknagóðir og fara þar fremst í flokki Sigrún Pálmadóttir í hlutverki Violettu Valery, sem er hin fallna kona sem titillinn vísar til, og Jóhann Friðgeir Valdimarsson í hlutverki Alfredo Germont, sonar Giorgios gamla. Í öðrum hlutverkum eru mestanpart söngvarar sem ég hef aldrei unnið með áður, enda er orðið svo langt síðan ég flutti útí heim að það væri sennilega ómögulegt fyrir mig að þekkja alla þá gæðasöngvara sem hafa byrjað að vinna fyrir sér með gaulinu síðan ég fór. Þó er gæðingurinn Jóhann Smári Sævarsson þarna líka, en við vorum saman við nám í óperuskóla Royal College of Music í London. Mest sem keppinautar, enda vorum við þá að syngja sömu hlutverkin, en núna er ég farinn að sperra mig uppávið og syngja sem barítón og Jóhann Smári heldur sig við sína náttúrulegu bassarödd. Og svo er gaman að sjá að Bragi Bergþórsson er byrjaður að vinna fyrir sér með söngnum, kominn af þessum líka frábæru foreldrum, Bergþóri Pálssyni og Sólrúnu Bragadóttur, báðum frábærum söngvurum.

Það er erfitt fyrir mig að venjast því að tala bara íslensku dags daglega, enda er ég giftur rússneskri konu og við tölum saman á samblandi af rússnesku og ensku, þar sem við bætast orð úr tungumáli þess lands sem við erum í hverju sinni, einsog "stau" fyrir umferðarteppu ef við erum í Þýskalandi, "peage" til að borga hraðbrautartollana í Frakklandi og þar fram eftir götunum. En ég verð að viðurkenna að mér gengur illa að venjast því hvað það eru margir blaða- og fréttamenn við störf hérna núna sem eru beinlínis illa menntaðir í tungumálinu ástkæra og blöðin leyfa sér að birta fréttatexta með hreint ótrúlegum villum. Ég hef lengi fylgst með fréttum á vefsíðu Moggans og hef lengi pirrast yfir því hvað fréttatextarnir þar eru oft uppfullir af stafsetningarvillum og vondu máli, en ég sé núna að þetta er ekkert einsdæmi. Arndís systir fann leiguíbúð fyrir mig hérna niðrí miðbæ Reykjavíkur meðan ég er við störf í Óperunni og ég fæ alltaf af og til Fréttablaðið gegnum bréfalúguna. Þar eru margar góðar greinar og oft merkileg mál rædd, en í sumum tilfellum er réttritun svo ábótavant að mér bregður illilega. Ekkert meira núna í dag en oft áður. Á fimmtugustu síðu Fréttablaðsins í dag er fjallað um Jón Gunnar Geirdal og Pétur Jóhann Sigfússon. Ég kannast ekkert við þá, en get ímyndað mér að um sé að ræða einhverja spéspekinga. Hinsvegar er þar að finna myndatexta þar sem segir að Jón Gunnar sé tilbúinn að leggja fram hjálparhönd ef Ólafi Ragnari vantar nýja frasa! Að "leggja fram hjálparhönd" hefði verið kallað að "bjóða hjálparhönd" held ég, en það er samt ekki svo slæmt - að leggja fram hjálparhönd hljómar vel finnst mér, og sögnin "að vanta" hefði stýrt þolfalli, en ekki þágufalli þegar ég var hérna við störf síðast. En kannski er ég bara svona mikið eftirá og þágufallssýkin er orðin að reglu! Og til að nefna annað dæmi er frétt á annarri síðu Fréttablaðsins í dag þar sem fjallað er um Öryrkjabandalagið og fráför Sigursteins Mássonar eftir ósigur hans í kosningu stjórnar í hússjóð bandalagsins. Þar segir "Þá kemur einnig fram að dæmi séu um að fólk með hreyfihömlun hafi ekki komist í bað vikum þar sem baðherbergjum þeirra hafi ekki verið breytt með hliðsjón af fötlun þeirra". Ég er viss um að þar hefur átt að standa "vikum saman" en ekki bara "vikum". Hinsvegar er ég viss um að það hefur verið um að ræða tölvuinnsláttarmistök - orðið "saman" hefur sennilega bara þurrkast út í tölvuvinnslu fréttarinnar, enda er fréttin að öðru leyti nokkuð vel skrifuð. Og svo er að finna tvær villur á vefsíðu Moggans núna. Önnur er í erlendri frétt sem var skráð klukkan 13:12 þar sem er fjallað um fyrirhuguð hryðjuverk í Þýskalandi. Þar segir "Í kjölfarið hantóku líbönsk yfirvöld sýrlending sem grunaður er um aðild að al-Qaeda". Þar hefði átt að standa "handtóku". Og í íþróttafrétt sem var slegin inn klukkan 14:26 segir að "Íslenska B-landsliði í handknattleik vann öruggan, 32-27, sigur á Portúgölum á Posten-mótinu í Noregi í dag". Sem er auðvitað frábært, en þar hefði átt að standa "Íslenska B-landsliðið".

En mér sýnist að með tilkomu tölvuvinnslu fréttatexta hefur prófarkalestri hrakað. Þegar ég vann uppá gamla Þjóðviljanum með snillingum einsog Merði Árnasyni og Árna Bergmann og prófarkalesurum einsog Elíasi Mar þá hefði þágufallsvillum verið komið fyrir kattarnef hið snarasta og viðkomandi blaðamaður fengið áminningu um ábyrgð okkar gagnvart tungumálinu sem við notum til að tjá okkur. Ég verð nú að viðurkenna að pirringurinn vegna ritvillnanna er aðallega vegna þess hvað Mogginn leyfir sér að birta vonda fréttatexta á vefsíðum sínum. Þar hef ég rekist á villur í hvert sinn sem ég hef verið að skoða fréttirnar á flakki mínu um heiminn og hef alltaf orðið jafn miður mín vegna ónákvæmninnar. Mér finnst að fréttablöð eigi að leggja metnað sinn í að skrifa fréttir á góðri íslensku og rétt stafsettar, svo fólk hafi gott aðhald með tungumálinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband