Lady Macbeth í Düsseldorf

DOR Lady 02Þegar æfingar hafa verið kaótískar og lítið um rennsli á öllu stykkinu sem maður er að æfa getur oft verið gott að renna nokkrum sinnum í lokin, en í þetta sinn er svoleiðis lúxus ekki fyrir að fara hérna hjá okkur í Düsseldorf. Við höfum ekki fengið eina einustu æfingu þar sem allt hefur gengið snurðulítið fyrir sig, svo maður er pínulítið kvíðinn fyrir hvort okkur eigi eftir að takast að komast frá frumsýningunni stórslysalaust. Og verkið er flókið. Hérna erum við að setja á svið óperuna Lady Macbeth frá Mzensk héraði eftir Dmitri Shostakovitsj og það er í annað sinn á þessu ári hérna hjá þessu kompaníi, en í vor var þessi uppfærsla sett upp í Duisburg, sem er hitt húsið sem Deutsche Oper am Rhein rekur.

Í kvöld fáum við nú samt vonandi fullt rennsli, enda síðasta æfing fyrir generalprufuna sem verður á morgun og svo frumsýnum við á föstudagskvöldið. Það verður nú að viðurkennast að karlfauskurinn sem ég leik er bölvað ómenni og það er óvíst að áhorfendur eigi eftir að kenna í brjósti um hann þegar tengdadóttirin eitrar fyrir honum með rottueitri sem hún setur útí uppáhalds svepparéttinn hans og drepur hann þannig. Hann engist um í sárustu kvölum, en maður hugsar nú eiginlega með sér að farið hafi fé betra og þetta sé bara gott á hann, helvítið af honum! Samfarir milli ansi margra karakteranna eru gríðarleg þungamiðja þessarar uppfærslu en minn maður verður útundan, án þess að hann hafi nokkurn skapaðan hlut um það að segja, og honum er það lítið að skapi. Honum finnst sonurinn ekki standa sig nógu vel í að fullnægja frúnni og vill ólmur og uppvægur komast í rúmið með tengdadótturinni, en þegar hann ætlar að láta til skarar skríða uppgötvar hann að þá, bara rétt í því, hafði hún átt í feikna samförum með vinnumanninum nýja í verksmiðjunni hans! Hann refsar kauða, en tengdadóttirin sér þá við karlinum og drepur hann rétt sí svona með sveppunum sínum! Kollegarnir mínir Viktoria Safronova og Sergej Naida eru hérna á myndinni ósköp vel afslöppuð eftir velheppnaðar samfarir Katarínu og Sergej.

Photo023Fyrir nokkrum árum síðan tók ég þátt í uppfærslu í Trondheim í Noregi á óperunni Eysteinn av Nidaros sem Sverrir konungur og núna í sumar var aftur hóað í mig til að vera með aftur. Að þessu sinni var uppfærslan önnur, þótt óperan hafi verið sú sama, en það var mjög gaman að koma aftur til baka til frænda okkar þarna í Þrándheimi og njóta sumarblíðunnar, þegar hennar naut við. Í þetta sinn var ég ekki í víkingaklæðum heldur íklæddur "kamouflage" búningi að skæruliðahætti og ein af innkomum mínum á sviðið var í gömlum amerískum jeppa frá síðari heimstyrjöldinni þar sem á eftir mér hlupu skæruliðarnir mínir öskrandi og æpandi eftir að hafa drepið alla sem í veginum höfðu verið og losnað við alla mótstöðu við Sverri konung. Óperunni lauk svo með pomp og prakt inní kirkjunni einsog reyndar síðast líka.

Photo028Ég fór svo í prufusöngferð í ágúst, fyrst til Þýskalands og svo niður til Ítalíu áður en ég flaug til Íslands að byrja æfingar fyrir uppsetninguna okkar á Cavalleria rusticana og Pagliacci í Íslensku óperunni, sem er nýafstaðin. Smelli með mynd af mér sem Lúba tók af mér í San Remo.

Jæja, ég þarf að drífa mig inní óperuhús svo ég sendi bara kæra kveðju heim og vona að allir heima hafi það gott, þrátt fyrir 18% stýrivexti og almenna fjárhagserfiðleika. Í mínum huga hljómar bara klausan okkar í skemmtanabransanum "the show must go on"!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband