Verkföll útum allt!

Ellen RissingerVerkalýðsfélög hljóðfæraleikara við óperuhúsin í Þýskalandi standa nú í verkfallsaðgerðum og afleiðingin er sú að sýningar fara fram í mörgum tilfellum við píanóundirleik í stað hljómsveitarinnar í gryfjunni. Í Stuttgart var Eugene Onegin til dæmis frumsýnd við píanóundirleik. Á laugardaginn var Fidelio eftir Beethoven sýnd hér við píanóundirleik og svo á sunnudaginn lenti ég í því að við fluttum Lady Macbeth frá Mszensk án hljómsveitarinnar. Beethoven sleppur eiginlega fyrir horn, en Schostakovitsj er einhvernvegin svo flókinn og maður þarf svo átakanlega á hljómsveitarhljóminum að halda að okkur fannst við eiginlega vera hálf berrössuð. Við vonum öll að sýningin á morgun verði með hljómsveitinni. Þar sem maður er orðinn vanur gríðarlega þykkum hljómi og litskrúðugum frá hljómsveitinni var ekkert meira en harður ómur frá flyglinum. Eiginlega hundfúlt að þurfa að lenda í þessu. Um það bil helmingur áhorfenda, sá hluti þeirra sem ekki yfirgaf óperuhúsið í fýlu vegna þessa óréttlætis að vera ekki boðið uppá nema hluta af þeirri upplifun sem þeir bjuggust við, var gríðarlega þakklátur fyrir okkar framlag, og þá helst framlag píanistans okkar, Ellen Rissinger, sem er nú orðin skærasta stjarnan meðal starfsmanna hússins. Blaðamenn hafa þessa vikuna setið um að taka við hana viðtöl og hún leikur að sjálfsögðu á alls oddi. Oftast eru undirleikararnir í þeirri aðstöðu að fá sjaldnast almennilegt hrós og þurfa að sitja við tímunum saman og spila misspennandi æfingar án þess að fá almennilega að láta ljós sitt skína. En núna skín stjarna Ellenar skært!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband