Færsluflokkur: Tónlist

... og meira frá Maribor


Cosi fan tutte - drengirnirÞriðja sýningin mín á Cosi fan tutte hérna í Maribor er í kvöld og síðasta sýningin er svo á föstudaginn. Okkur hefur verið vel tekið, enda uppfærslan stórskemmtileg og þó svo Slóvenarnir skilji ekki hvert orð er gamanleikurinn svo vel sviðsettur að áhorfendurnir hlægja alltaf á réttu stöðunum og hafa mikið gaman af veseninu á sviðinu. Leikstjórinn er belgískur og heitir Guy Joosten; stórfínn leikstjóri sem ég hef nú unnið fjórum sinnum með og hef alltaf jafn gaman af. Hann leikstýrði meistara Kristni í uppfærslunni á Rómeó og Júlíettu á Metropolitan óperunni og er að gera góða hluti víðsvegar um heim. Hann er einn af þeim sem koma til starfa á fyrsta degi æfinga með fullkláraða hugmynd um hverja einustu senu í verkinu og er ansi harður á að hafa hlutina einsog hans eigin hugmyndir segja til um, en ef fólk er klárt og getur betrumbætt hlutina er hann sveigjanlegur og alltaf tilbúinn til að breyta og bæta. Ég hef skellt hérna með myndum af okkur strákunum saman og svo af stelpunum líka. Sviðsmyndin er hótelanddyri og hugmyndin er að þetta sé hótel í Napólí, þar sem í bakgrunninum má sjá útlínur Vesúvíusar - og þetta er að gerast í nútímanum, kannski á áttunda áratugi síðustu aldar.

Það er erfitt að fastnegla hvað hérna í Maribor er sérstaklega slóvenskt. Ef maður les sér til um sögu staðarins, til dæmis á Wikipedia, er greinilegt að lengst af hafa þýskumælandi herrar ráðið hér lögum og lofum; um 1920 voru 80% Mariborbúa þýskir, en eftir síðari heimstyrjöldina voru þjóðverjarnir flæmdir í burtu og slóvenarnir tóku ráðin. Samt er þýskan það tungumál sem maður kemst best af með í búðum hérna í Maribor. Mér sýnist á alþýðumenningunni að fólk hér sé ótrúlega svipað austurríkismönnum að mörgu leiti. Hérna eru á mörgum sjónvarpsstöðvum í gangi svipuð þjóðlagaprógrömm og má finna í alpahéruðum Þýskalands, Austurríkis og Sviss. Óaðfinnanlega brosmilt fólk spilandi og syngjandi þessi líka mishressilegu hopp-lalla lög með harmónikkur og tírólaklæði. Karlmennirnir ægilega penir og fínir og stelpur með gífurlega ljóslitað hár og barmastórar í stíl stelpnanna sem frægar eru fyrir að þjóna á Oktoberfest.

Cosi fan tutte - stúlkurnarFjallið Pohorje gnæfir yfir borgina og þar eru frábærar skíðabrekkur. Þegar ég kom í lok mars var enn svolítill snjór en hann er farinn núna. Mér skilst að hér séu Slalom mót haldin í tengslum við heimsmeistaramót kvenna á skíðum og svo er verið að reyna að markaðssetja brekkurnar sem gæða skíðasvæði fyrir túrista. Verðlagið hérna er ekki hátt, svo það gæti vel borgað sig að skoða að koma hingað í skíðafrí.

Ég ætlaði að fara í sund í fyrstu vikunni minni hérna, en varð fyrir miklum vonbrigðum með að flestar laugarnar eru þannig gerðar að maður getur einfaldlega ekkert synt. Fólk liggur bara einsog í heitu pottunum og lætur loftbólunuddið sem er útum allar laugar gæla við sig. Þegar ég sá skiltið fyrir gufubaðið ákvað ég að slá til og fara í gufu. Mér til mikillar undrunar var ég skikkaður til að afklæðast gjörsamlega áður en í gufuna væri farið - engar sundskýlur þar. En það var erfiðara að venjast því að karlar og konur voru saman í gufunni - sem er auðvitað ágætt útaf fyrir sig - en getur orðið óþægilegt þegar stórglæsilegt fólk af gagnstæðu kyni er þar allt um kring!

Það eru ekki nema nokkrir dagar eftir af dvölinni hérna og ég held ég eigi eftir að hugsa til fólksins hérna með söknuði. Þessir gömlu Júgóslavar eru mjög almennilegt fólk. Lífsgæðakapphlaupið er að vísu að byrja að leggja þá undir sig, en þeir halda enn margir hverjir í gömlu sósíalísku gildin, sem ég held að sé gott. Vonandi tekst þeim að viðhalda þeim sem lengst. 


Taugatrekkjandi fyrirsöngur

ROF_manifesto_2007Ég hef svosem ekkert á móti því að syngja fyrir, en það reynist alltaf vera meira taugastrekkjandi heldur en ég ímynda mér fyrirfram. Maður er svalur og óhræddur allt fram að síðustu mínútunum fyrir fyrirsönginn, en svo fæ ég alltaf smá hnút í magann og stressast rétt áður en ég þarf að syngja. Svo setur maður bara í gír og allt gengur fyrir sig einsog það á að gera. Það er einfaldlega hábölvað að þurfa að gera þetta, en án fyrirsöngs af og til er erfitt að vera ráðinn. Listrænir stjórnendur vilja oft frekar heyra í söngvaranum "in the flesh" heldur en reyna að ráða af upptökum hvernig röddin hljómar í raun og veru.

Nýja umboðsskrifstofan mín skipulagði fyrirsöng fyrir nokkra af sínum söngvurum í Pesaro í gær og líka í síðustu viku, en ég sló til og tók þátt í gær. Rossini óperuhátíðin stendur yfir núna og tækifærið var notað þar eð margir listrænir stjórnendur óperuhúsa voru saman komnir í borginni til að sjá sérfræðingana spreyta sig á leikfimi þessa matglaða snillings. Við Lúba keyrðum héðan að heiman eftir hádegið á miðvikudaginn og komum til Pesaro rétt fyrir miðnætti. Fyrirsöngurinn var svo seinnipartinn í gær og við vorum komin aftur heim í nótt sem leið. Ég söng aríu Hollendingsins fljúgandi, einsog ég geri oftast núna um þessar mundir og svo aríu Alekós eftir Rachmaninoff - frábær tónlist - ekkert alltof strembin raddlega og frábærlega áhrifarík þegar píanistinn er góður - og ég er svo heppinn að Lúba mín er frábær píanisti! Það er allt útlit fyrir að eitthvað gott komi útúr þessu, en maður veit aldrei fyrr en búið er að setja penna á blað og samningur er undirritaður, svo ég bíð bara og sé til.

Í Pesaro gistum við hjá fólki sem er tengt hinum mikla söngmeistara Luciano Pavarotti, en hann býr einmitt í Pesaro - í það minnsta af og til. Mér varð einmitt hugsað til hans í gær þegar ég var að bíða eftir að syngja sjálfur í þessum fyrirsöng. Ef hann hefði þjáðst af sama sviðsskrekk og karl faðir hans, einsog sagan hermir, þá hefði tónlistarheimurinn orðið fátækari fyrir vikið. Karlinn var víst með fína og hljómmikla rödd, en varð svo stressaður þegar hann átti að syngja opinberlega að hann missti alla stjórn á sér og röddinni. Kollegar mínir sem voru að syngja fyrir voru í sumum tilfellum svo rosalega fínir á æfingunni með píanistanum og svo þegar þeir og þær voru að hita röddina upp í búningsherbergjunum að það var stundum ótrúlegt að heyra muninn hvernig þau hljómuðu þegar á sviðið var komið. Stundum voru þau ekki nema skugginn af sjálfum sér. Þetta er skrítin skeppna - stressið!


Stórsöngvari

Það er sérstaklega gaman að sjá að Mogginn tekur eftir stórvirkjum Kristins Sigmundssonar. Hann er frægastur íslenskra óperusöngvara í dag og verðskuldar það sannarlega. Hann er með frábæra rödd með einstakan litblæ, stórfyndinn og sannfærandi leikari og mikill öðlingur. Íslenskir óperuáhugamenn sem hafa einhverja möguleika á að fara til New York og sjá meistarann á sviði Metrópólitan óperunnar ættu að gera það sem oftast!
mbl.is Undir stjórn Domingo
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband