Taugatrekkjandi fyrirsöngur

ROF_manifesto_2007Ég hef svosem ekkert á móti því að syngja fyrir, en það reynist alltaf vera meira taugastrekkjandi heldur en ég ímynda mér fyrirfram. Maður er svalur og óhræddur allt fram að síðustu mínútunum fyrir fyrirsönginn, en svo fæ ég alltaf smá hnút í magann og stressast rétt áður en ég þarf að syngja. Svo setur maður bara í gír og allt gengur fyrir sig einsog það á að gera. Það er einfaldlega hábölvað að þurfa að gera þetta, en án fyrirsöngs af og til er erfitt að vera ráðinn. Listrænir stjórnendur vilja oft frekar heyra í söngvaranum "in the flesh" heldur en reyna að ráða af upptökum hvernig röddin hljómar í raun og veru.

Nýja umboðsskrifstofan mín skipulagði fyrirsöng fyrir nokkra af sínum söngvurum í Pesaro í gær og líka í síðustu viku, en ég sló til og tók þátt í gær. Rossini óperuhátíðin stendur yfir núna og tækifærið var notað þar eð margir listrænir stjórnendur óperuhúsa voru saman komnir í borginni til að sjá sérfræðingana spreyta sig á leikfimi þessa matglaða snillings. Við Lúba keyrðum héðan að heiman eftir hádegið á miðvikudaginn og komum til Pesaro rétt fyrir miðnætti. Fyrirsöngurinn var svo seinnipartinn í gær og við vorum komin aftur heim í nótt sem leið. Ég söng aríu Hollendingsins fljúgandi, einsog ég geri oftast núna um þessar mundir og svo aríu Alekós eftir Rachmaninoff - frábær tónlist - ekkert alltof strembin raddlega og frábærlega áhrifarík þegar píanistinn er góður - og ég er svo heppinn að Lúba mín er frábær píanisti! Það er allt útlit fyrir að eitthvað gott komi útúr þessu, en maður veit aldrei fyrr en búið er að setja penna á blað og samningur er undirritaður, svo ég bíð bara og sé til.

Í Pesaro gistum við hjá fólki sem er tengt hinum mikla söngmeistara Luciano Pavarotti, en hann býr einmitt í Pesaro - í það minnsta af og til. Mér varð einmitt hugsað til hans í gær þegar ég var að bíða eftir að syngja sjálfur í þessum fyrirsöng. Ef hann hefði þjáðst af sama sviðsskrekk og karl faðir hans, einsog sagan hermir, þá hefði tónlistarheimurinn orðið fátækari fyrir vikið. Karlinn var víst með fína og hljómmikla rödd, en varð svo stressaður þegar hann átti að syngja opinberlega að hann missti alla stjórn á sér og röddinni. Kollegar mínir sem voru að syngja fyrir voru í sumum tilfellum svo rosalega fínir á æfingunni með píanistanum og svo þegar þeir og þær voru að hita röddina upp í búningsherbergjunum að það var stundum ótrúlegt að heyra muninn hvernig þau hljómuðu þegar á sviðið var komið. Stundum voru þau ekki nema skugginn af sjálfum sér. Þetta er skrítin skeppna - stressið!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Thor Kristinsson

Þetta er svo furðulegur mælikvarði á söngvara þessi fyrirsöngur. Besti leiðin til að meta söngvara er að sjá hann í hlutverki; með hljómsveit, leikmynd og öllu klabbinu. Margir góðir söngvarar ná ekki að sýna sínar bestu hliðar í fyrirsöng og sumir eru frábærir í fyrirsöng en afleitir í sýningu.

Hvað um það ég er viss um að þú hefur sýnt Ítölum hvar Davíð keypti söngolíuna og þó að hafi bara verið 70% var það  örugglega meira en nóg.

Bjarni Thor Kristinsson, 17.8.2007 kl. 22:40

2 identicon

Það hefur alltaf reynst erfitt að útskýra fyrir vinum og vandamönnum þeirri tilfinningu að fara í prufusöng. Ég hef þó komist næst því þegar ég líki því við þá stemningu sem konurnar í minni fjölskyldu lýsa við heimsókn til kvensjúkdómalæknis. Maður "leggst" á bekkinn, glennir sig fyrir framan bláókunnugt fólk og reynir að bera sig mannalega á meðan. Og svo vonar maður að útkoman verði ekki of slæm!

ÓlKj

Óli Kjartan (IP-tala skráð) 20.8.2007 kl. 09:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband