19.10.2007 | 10:21
Salome tælandi og svo fauk hausinn!
Þá er frumsýningin afstaðin og reyndar líka önnur og þriðja sýningin líka. Í fyrradag var sýningin svo tekin upp á myndrænu formi, svo það verður kannski hægt að eiga einhverjar myndir af öllu klabbinu - ég splæsi hérna með mynd af sjálfum mér í þessum líka innri sálarkvölum vegna freistinganna sem þessi syndum hlaðna prinsessa er að leggja fyrir prédikarann góða, félaga Jóhannes skírara!
Það verður að viðurkennast að það er varla hægt að ímynda sér betri kringumstæður til að prófa svona nýja rullu í fyrsta sinn. Hérna eru músíkantarnir þrælfínir og allar aðstæður til fyrirmyndar, en áheyrendurnir hérna hafa aldrei heyrt tuttugustu aldar óperu í sínum tónleikasölum, svo væntingarnar eru þægilega lágar án þess að gæðakröfurnar séu alltof lágar! En ég verð líka að segja að þessi rulla passar mér ótrúlega vel. Hún liggur einhvernvegin svo þægilega að mér finnst ég ekki þurfa að hafa nokkurn skapaðan hlut fyrir því að syngja þetta. Og viðtökurnar hafa verið skemmtilega góðar.
Thessaloniki, einsog svo margar grískar borgir, að mér skilst, er á mörkunum að vera feiknaljót. Hér eru svotil öll hús eins - steinsteypt 5 til 6 hæða hús með svölum. Fullkomlega ferköntuð og til þess gerð að koma sem flestum íbúum inní þau. Kunnugir hafa sagt mér að borgin hafi verið mjög falleg á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar með glæsilegum villum og stórglæsilegum Art Deco byggingum, en vandræðin voru þau að þau voru flest í eigu gyðinga. Í seinni heimstyrjöldinni tókst nasistunum að flytja yfir 90 prósent af öllum gyðingum í Thessaloniki í útrýmingarbúðir og eftir stríðið fór restin svo til Ísraels. Sem þýddi að ógurlegur fjöldi húsa stóð yfirgefinn og án eigenda. Byggingabröskurum tókst svo að sannfæra borgaryfirvöld um að jafna við jörðu þessar glæsibyggingar og byggja "fúnksjónalísk" hús sem gætu hýst hina nýju Grikkja, lausa við nasista og eins við Tyrki, sem höfðu verið drottnarar svo lengi fram að 19 öldinni. Grikkir vildu koma sér upp sinni nýju sjálfsímynd án of mikilla drauga úr fortíðinni. Sem er að mörgu leiti skiljanlegt, en skelfilega sorglegt frá fegurðarsjónarhorninu!
Ég hef verið að vinna með Grikkjum sem þekkja íslendinga og nota tækifærið að senda kveðjur, ef einhver sem slysast til að lesa þetta tuð mitt vildi vera svo almennilegur að koma á framfæri. Angela nokkur var sviðsstjóri í uppfærslunni sem Kolli Ket var í á Medeu og hún sendir honum kærar kveðjur og ber honum stórvel söguna! Hún var aðstoðarleikstjóri hérna hjá mér. Og Dafne Evangelíus sendir Mörtu Halldórsdóttur kærar kveðjur. Dafne er að syngja hlutverk Herodíasar og er sérstaklega elskuleg kona.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Til lukku með sýninguna. Fínasta mynd sem fylgir, er ekki alltaf jafn skemmtilegt að setja upp kollu ;-)
Kær kveðja frá Lovely Leeds,
Óli Kjartan
Óli Kjartan (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 10:31
Sæll félagi!
Þessi kolla er ferlega diskó-leg - það var kannski meira viðeigandi að raula "By the rivers of Babylon!" heldur en "Tochter Sodoms, Tochter Babylons!"
Sá að þú hefur fengið frábæra dóma sem Ford í Leeds - flott! - til lukku með það!
Tommi
Tómas Tómasson, 22.10.2007 kl. 21:34
Sæll gamli,
takk fyrir það. Fordinn virðist passa ágætlega í kjaftinn á mér og ég hef gaman af. Var að skríða inn á hótel í Nottingham, sýning á eftir og á föstudag. Var annars að æfa Germont og Boccanegra í fyrradag...mikið djö...er það hressandi!
Heyrumst,
ÓlKj
Óli Kjartan (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 15:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.