3.2.2008 | 15:31
Heilbrigð sál í hraustum líkama!?!
Rúllupylsumeistaramótið í tennis fór fram í Smáranum í Kópavogi í gærkvöld og Dalli, mágur minn, var svo almennilegur að bjóða mér að vera með. Það var þrælgaman að spila og mér tókst meira að segja að vinna einn leik, sem þá þýddi að ég lenti ekki í neðsta sæti, heldur næst neðsta! Stemmningin var gríðarlega góð og sigurvegarinn, Börkur - ElRey, vann alla sína leiki með glæsibrag! Hann var svo krýndur Rúllupylsumeistari 2008 með pomp og prakt. Uppá veggjum í Smáranum voru svo myndir af þessum líka stórmyndarlega dreng, Arnari Sigurðssyni tenniskappa, sem prýðir þá líka þessa síðu mína. Það var svo skemmtilegt að geta komist í svolítið keppnisskap að mig dauðlangar að reyna að gera eitthvað svona oftar þegar ég er á þessu flakki mínu um heiminn, en auðvitað verður það erfitt. Það væri nú samt gott að geta náð af sér þessari pínulitlu letivömb sem er því miður framaná mér. Það er bara svo hryllilega leiðinlegt að vera eitthvað að æfa sig inná líkamsræktarstöðvum. Mér finnst miklu meira gaman af því að keppa um leið og ég fæ einhverja líkamlega æfingu.
Það hefur verið mjög gott að geta sungið með góðum félögum mínum, gömlum kunningjum og nýjum líka, í kirkjulegum athöfnum þessa síðustu daga, enda kemst maður í svo allt annað samband við tónlistina í svoleiðis söng. Ég hef ekkert sungið í kór í tæpa tvo áratugi og er núna að prófa það aftur. Það er svo gjörólíkt því að vera alltaf að syngja sem einsöngvari að það tekur svolítið á að þurfa að gíra sig niður í raddstyrk, en er samt feikna gott fyrir sálartetrið. Og sálmarnir eru oft svo mannbætandi að maður hefur bara gott af að syngja þá sem oftast. Og mannsröddin er og verður alltaf það hljóðfæri sem best kemur til skila tilfinningalegum blæbrigðum í tónlist; maður kemst alltaf best í samband við hið einfaldasta en um leið mikilvægasta í lífinu þegar maður syngur í kirkju.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.