Það er gaman í óperunni!

La traviata í Íslensku óperunniFrumsýningin er búin og önnur sýning líka og á morgun sýnum við í þriðja sinn La traviata í Íslensku óperunni. Ég var eitthvað smeykur um að ég þyrfti að aflýsa vegna þess að ég fékk í mig þetta líka ferlega kvef á mánudagskvöldið, en ég er að verða nógu góður til að klára mig vel af þessu. Það er búið að vera frábært að fylgjast með hvað óperuáhugafólk hérna tekur vel við sér. Miðar rjúka út í miðasölunni einsog heitar lummur og núna þessa dagana er verið að ákveða hvaða dagsetningar verða á enn fleiri aukasýningum sem ættu að koma í sölu alveg á næstu dögum. Gaman að þessu. Annars er ég ekkert hissa á því. Þetta stykki er svo ótrúlega flott frá hendi Verdis gamla að maður getur ekki annað en hrifist með. Ég átti til dæmis í vandræðum með að einbeita mér að því að leggja á minnið senurnar með Violettu af því ég endaði alltaf tárvotur og miður mín yfir hvað stelpuskömmin þurfti að líða fyrir þessa hörku pabbans gamla! Ég er náttúrulega óttalegur vælukjói, en ég hugsa að ég sé reyndar ekkert einn um það. Maður hrífst einfaldlega með þegar tilfinningaátökin eru jafn gífurleg einsog raun ber vitni í þessari óperu.

Ég hef mikið verið að hugsa um framtíðarhúsnæði fyrir Íslensku óperuna síðan ég kom hingað heim, enda er brýn þörf á því. Gamla bíó hefur staðið vel fyrir sínu, en nú virðist vera kominn tími til að Óperan komist í stærra húsnæði, sem vonandi verður gott. Núna skilst mér að skilafrestur sé að renna út fyrir hönnunarhugmyndir að nýju óperuhúsi í Kópavogi og það verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig hugmyndir menn leggja fram. Mér skilst að ætlunin sé að þetta eigi að rísa í grennd við Salinn, sem ég hugsa að geti komið stórvel út, en ég held að það þurfi að taka til greina hvernig fólk gerir sér dagamun þegar það fer á óperusýningar. Það er mjög algengt að fólk byrji á að fara á veitingahús áður en sýning byrjar og fari jafnvel á krár eða bari eftir að sýningum lýkur. Þetta kemur náttúrulega best út ef veitingahúsin og krárnar eða barirnir eru nálægt leikhúsinu. Þess vegna ætti Kópavogsbær að gera í því að reyna að laða að sér góða veitingamenn til að gera góða hluti þarna á hæðinni. Um leið og sýningalífið glæðist eru nefnilega allar líkur á að veitingahús í nágrenninu geti blómstrað. Allir yrðu ánægðir með það. Það hefði nefnilega verið tryggt ef óperuflutningur hefði verið hugsaður inní nýja Tónlistarhúsinu við höfnina, sem mér finnst nú reyndar stórglæsilegt og hlakka mikið til að heyra Sinfónína þar í góðum gír. En þá hefði verið svo auðvelt að gera sér dagamun í kringum óperusýningarnar. En fyrst svo er ekki verður nýtt óperuhús einfaldlega að draga að sér nýja veitingastaði og hugguleg kaffihús og krár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ari Jóhann Sigurðsson

Þakka fyrir frábæra skemmtun Tómas. Verð þó að viðurkenna að mér brá svolítið þegar ameríski fáninn var settur upp. Erfitt að ímynda sér Verdí í Ameríku árið 1920. En sviðsmynd var flott og söngurinn góður. Gangi þér svo allt í haginn.

Mbk. Ari

Ari Jóhann Sigurðsson, 16.2.2008 kl. 14:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband