30.3.2008 | 21:59
Cosi fan tutte í Maribor
Þá er ég kominn til Maribor í Slóveníu til að æfa og syngja hlutverk Don Alfonso í óperunni Cosi fan tutte eftir Mozart. Það passar kannski að senda kærar kveðjur og heillaóskir til óperustúdíósins í Íslensku óperunni, en þar syngur kollegi minn Þorvaldur Þorvaldsson sama hlutverkið og ég er að fást við hérna og ég efast ekki um að það verði feiknagott hjá honum.
Ég tók að mér svo mikinn söng í þessari heimaveru núna rétt fyrir páskana að ég hefði haft gott að svolítilli afslöppun, en það fór svo að ég þurfti að fljúga hingað til Slóveníu strax á annan í páskum og hef verið á æfingum á hverjum degi síðan. Er sem betur fer í fríi í dag og naut þess að fara í labbitúr uppá hæð sem gnæfir yfir bæinn og baðaði mig í sólinni. Heiður himinn og sæmilega heitt, svo þetta var alveg stórfínt. Góður hvíldardagur.
Hér við ánna Drava er svo sérkennilegur vínviður. Þetta ku vera elsti vínviður í heimi og er gríðarlega stór - þekur framhlið eins af gömlu húsunum við ánna og Mariborbúar eru mjög stoltir af þessum sérstaka vínvið. Á myndinni hérna við hliðina er hægt að sjá herlegheitin - á húsinu vinstra megin við miðju. Ég er annars búinn að smakka nokkur af vínunum hérna og er alveg ófeiminn við að viðurkenna að þau eru bara dágóð. Sum hvítvínin eru sérstaklega góð og rauðvínin eru prýðileg.
Segi kannski seinna frá hvernig þessi uppfærsla á Cosi fan tutte leggst í mig.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.