4.5.2008 | 11:16
... sweet home ...
Þá erum við loksins komin heim eftir allt þetta flakk síðustu mánaðanna og núna er bara framundan grassláttur og almenn aðhlynning að draslinu okkar hérna í Frans. Sprettan er búin að vera feiknagóð, svo maður þarf að halda sig allan við að rúlla sláttuvélinni útum allt öllum stundum.
Keyrslan frá Maribor var stórslysalaus, einsog við var að búast, sem betur fer, en það kom mér svolítið á óvart hvað landslagið þarna í Slóveníu er magnað. Það er ekkert mikið um há fjöll, samt svolítið, en þarna eru hæðir eftir hæðir eftir hæðir. Svolítið svipað og hérna hjá okkur í Provence, en bara margfalt hæðóttara - ef maður getur sagt það. Litbrigðin í náttúrunni voru undurfalleg; allt frá dökk grænum furutrjám og útí ljósgræna, nýlaufgaða aska - sýndist mér (segir maður kannski asktré? - nei, aska, held ég, þó ekki þeir sem maður getur borðað úr - kannski er þetta allt önnur trjátegund - ég er svoddan auli í þessum trjágreiningum). Ég get ímyndað mér að haustin þarna austurfrá séu stórkostlega falleg - með öllum rauðu og gulu litbrigðunum sem bætast þá við.
Hérna hjá okkur hefur Ljúba verið iðin við að gróðursetja ávaxtatré og annað grænt góðgæti, en svo virðist sem villisvínin hérna hafi áttað sig á hvernig hægt er að troða sér undir girðinguna á nokkrum stöðum, með þeim afleiðingum að þau hafa étið töluverðan slatta af rótum og einhverju fleiru - og rótað upp útum allt hjá okkur. Kannski voru þetta ekki bara villisvínin, heldur líka skjaldbökur, sem við höfum af og til staðið glóðvolgar að því að háma í sig melónur og salatblöð. Þær eru friðaðar hérna og maður verður bara að reyna að byggja einhverskonar tálma fyrir þær, sem þær geta samt skriðið undir. Það dugar samt ekkert gegn villisvínunum - þau ryðjast í gegnum hvað sem er og láta einsog þau eigi þetta allt saman!
Athugasemdir
Svín eru skjaldbökur og skjaldbökur eru svín.... Meðan ekkert annað er að angra þig í bakgarðinum er allt í góðu.
Bjarni Thor Kristinsson, 4.5.2008 kl. 21:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.