Kölski kvaddur og við tekur krypplingurinn hefnigjarni

Faus bal 1305Síðasta sýningin á Faust-bal sem ég tek þátt í hér í Madrid verður á morgun og þar með kveð ég suðrið sæla með sól og blíðu og held norður til Nancy til að halda áfram æfingum á Rigoletto. Ég hafði hugsað mér að njóta frídaganna milli sýninganna hér til að spássera í sólinni og skrifa eitthvað þvaður þess á milli, en strax eftir frumsýninguna þurfti ég að horfast í augu við harðann veruleikann, að ég þyrfti að fljúga milli sýninganna hér til að hefja æfingar á næstu óperuuppfærslunni sem ég tek þátt í; Rigoletto. Gamli umbinn minn hafði nefnilega ekki gengið betur en svo frá hnútunum þegar hann átti að semja um að ég fengi leyfi til að vera um kyrrt hérna í Madrid milli sýninganna og vera ekkert að þeytast til Nancy þess á milli, að honum láðist að láta mig vita af því að það hafi orðið að samkomulagi milli hans og listræna stjórnandans í þessu ágæta franska óperuhúsi að ég skyldi fljúga milli sýninganna og æfa á frídögunum krypplinginn hefndarþyrsta. Þetta frétti ég fyrst á mánudaginn; daginn áður en æfingarnar skyldu hefjast í Nancy, klukkustund áður en ég skyldi vera mættur til að láta sminka mig fyrir sýningu númer tvö á Faust-bal. Stressið við að finna flugmiða morguninn eftir og græja allt það sem græja þurfti var auðvitað hábölvað, en einhvernveginn reddaðist þetta og allir eru sáttir við sinn hlut núna, þó svo ég verði að viðurkenna að þessa síðustu viku hef ég sennilega sofið að meðaltali 3 klukkustundir á sólarhring. Ég söng mína aðra sýningu á mánudagskvöldið hérna í Madrid, æfði í Nancy á þriðjudaginn, söng sýningu í Madrid á miðvikudaginn, æfði í Nancy á fimmtudag og föstudag og söng svo næstsíðustu sýninguna hérna í Madrid í gærkvöld. Og í dag gat ég loksins spásserað einsog ég hafði ætlað mér, laus við að þurfa að vera að keppa við klukkuna um að komast útá flugvöll, í lestina, í rútuna, á æfinguna, í leikhúsið, á réttum tíma og vera í nógu góðu standi til að geta sungið almennilega. Photo020Ég rölti mér einfaldlega útí Retiro garðinn og naut þess að eiga frídag; loksins! Einn af tæknimönnunum í leikhúsinu benti mér á að þar væri að finna styttu af fallna englinum og þar eð ég byrja sýninguna með flennistóra svarta vængi og sem fallni engillinn Mefistofeles gat ég ekki stillt mig um að taka mynd af þessari frummynd minni!

Faust-bal hefur verið tekið þónokkuð vel og þvert á minn grun um að áhorfendur myndu halda sig frá þessum sýningum hefur aðsóknin verið mjög góð og móttökurnar með ágætum. Gagnrýnendur hafa verið með ólíkindum jákvæðir; auðvitað hafa þeir haft skiptar skoðanir á bæði tónlistinni og textanum, en ég hef fengið mjög jákvæða umfjöllun, sem að sjálfsögðu gleður mitt hégómlega hjarta! Þetta er ópera um lækninn Faust-bal og hvernig kölski reynir að freista hennar meðan guð leggur til að hún velji hið góða þess í stað, sem hún og gerir. Hún nýtur liðsfylgis Amazonu, sem er einskonar lesbískur kvenhermaður og þeirra kynni leiða til að Fásta fæðir klónað barn sem Margarito drepur. Margarito er ástfanginn af Fástu, en hann er aggressívur amerískur herforingi og endar óperan á að hann nauðgar henni og drepur, án þess að hún gangist við að villast af vegi góðmennskunnar. DSCF5040DSCF5043Undir lokin geng ég í hlutverki kölska um allan salinn og í gærkvöld vildi svo skemmtilega til að sérstaklega trúuð eldri kona æpti og hrópaði á mig að hunskast í burtu, rauðbölvaður skrattinn, og láta þessa góðu og hreinu stúlku í friði. Þegar eitthvað viðlíka gerist veit maður að áhorfendur eru vel með á nótunum og trúa því sem maður gerir! Rétt fyrir frumsýninguna kom einn af kórtenórunum og tók myndir af bæði mér og félaga mínum sem er í hlutverki guðs og ég skelli hér með myndunum af okkur.

Rigoletto tekur svo við og uppsetningin verður öll í anda Clockwork Orange. Búningarnir verða hvítir og harkan og ofbeldið í spilltu töffarasamfélagi ræður ríkjum. Rigoletto er ekki krypplingur, heldur afmyndaður í framan vegna örs sem lætur hann líta út fyrir að vera síbrosandi (frummynd Jokersins í Batman sögunni og hugmyndin tekin úr annarri sögu Viktors Hugo; Maðurinn sem hlær) og kryppan er eitthvað sem hann notar sem atvinnutæki við hirðina og tekur af sér áður en heim til dótturinnar Gildu kemur. Ég er spenntur að sjá hvernig útkoman verður og skrifa eitthvað meira um þetta þegar nær sýningunum dregur, nú eða eftirá, sjáum bara til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll kæri frændi.

Það er aldeilis mikið að gera hjá þér þessa dagana. Skemmtilegar myndir.

Hafðu það gott og gangi þér vel.

Kveðja Kría 

Kría (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband