Terminator krypplingur!

rigoletto nancy 2009 030Þriðja sýningin á Rigoletto hérna í Nancy var í gærkvöld og sú fjórða af sex verður annað kvöld. Ég var svo óheppinn að fá leiðinda sýkingu í hálsinn á æfingatímabilinu, svo ég var hreint ekkert viss um að ég myndi komast í gegnum sýningarnar klakklaust, en sem betur fer var ég orðinn sæmilega sprækur fyrir frumsýninguna og smátt og smátt hafa sýningarnar gengið betur og betur og líðanin skánað smátt og smátt.

Leikstjórinn, Mariame Clement, ákvað að byggja sviðshugmyndina og alla umgjörð á hinni klassísku kvikmynd meistara Stanley Kubrick, Clockwork Orange. Það leiðir óhjákvæmilega af sér að ofbeldið sem er að finna í upprunalega verkinu er magnað margfalt. Karlhópurinn sem er uppistaðan í hirð hertogans er gríðarlega grimmur og óforskammaður og þeir, til dæmis, nauðga og myrða síðan Giovönnu; í lokin kemur hertoginn útúr herbergi Maddalenu með alblóðugar hendurnar eftir að hafa myrt hana. Hlutverkið mitt er Rigoletto og í stað þess að hann sé krypplingur klæðist hann einfaldlega búning sem er með kryppu. Hirðin heldur að hann sé krypplingur, en þegar hann hverfur heim á leið, klæðir hann sig úr kryppunni, en hinsvegar er hann allur ummyndaður í framan; með gríðarlegt ör á vinstri vanganum, einsog eftir brunasár, og útfrá munninum er einsog örið myndi bros sem hann losnar aldrei við. Hugmyndin að þessu er sótt í bók Victors Hugo "L'homme qui rit" í stað þess að halda fullri tryggð við upphaflegu bókina hans "Le Roi s'amuse" sem óperan er byggð á. Sem betur fer er uppistaðan í sminkinu silikon, svo þegar ég opna munninn til að syngja er þetta síður en svo til vandræða. Áhorfendur eru í nokkurra metra fjarlægð, svo þeir sjá ekki allan ófögnuðinn í öllum sínum smáatriðum, en á fyrstu æfingunum sem ég hafði sminkið framaní mér urðu nokkrir sviðsmennirnir gjörsamlega sjokkeraðir þegar ég mætti þeim á sviðinu og/eða á göngunum í leikhúsinu!

Place_Stanislas_Op%C3%A9ra_211207[1]Nancy er þónokkuð sjarmerandi borg og torgið sem óperuhúsið stendur við, Stanislas torg, er ein af gersemum álfunnar. Við torgið eru byggingarnar ekkert sérstaklega háreistar, en allar í sama stíl; reistar fyrir tilskipun hertogans af Lorraine Stanislas Leszczyński, en hann var tengdapabbi Lúðvíks XV, og byggðar milli 1751 og 1755 af arkítektinum Emmanuel Héré. Torgið var nefnt "Place Stanislas" árið 1831 og er núna friðað undir merkjum Unesco. Myndin hérna til hliðar er af framhlið óperuhússins og vinstra megin við það er hlið inní Pépinière garðinn þar sem er meðal annars að finna lítinn dýragarð, kaffihús og allskyns leiktæki. Um helgar spila menn gjarnan fótbolta á þartilgerðum velli í garðinum og fótstígarnir eru alltaf fullir af spásserandi fólki þegar vel viðrar (sem reyndar hefur ekki gerst nógu oft meðan ég hef verið hérna í þetta sinn!). Í eldri hluta borgarinnar getur maður svo fundið fádæma góða veitingastaði þar sem er hægt að bragða á gómsætum sérréttum héraðsins í bland við standarda frá öðrum löndum og heimsálfum. Mér hefur liðið alveg prýðilega og þægi það með þökkum ef mér yrði boðið að syngja hérna aftur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband