Sitt lítið af hverju

Stundum er ég ósköp ánægður með að klára uppfærslur á óperum sem eru kannski ekki fullkomlega að mínum smekk, en svo kemur að því að ég gæti hugsað mér að syngja enn fleiri sýningar á öðrum; þessi Rigoletto uppfærsla sem ég er að fara að kveðja á morgun er ein af þeim síðarnefndu. Ég lít náttúrulega út einsog skrímsli með allt þetta sílikon framaní mér, en ég er búinn að njóta þess svo gjörsamlega að fá tækifæri til að þróa og þroska með mér þetta hlutverk krypplingsins að það verður óttalega sorglegt að kveðja kauða. En ég geri það á morgun. Síðasta sýningin af níu í þessari uppfærslu frá Nancy í samvinnu við Caen, en hér í Caen kláruðum við aðra sýningu hérna í gærkvöld og þriðja og síðasta sýningin er á morgun. Eftir því sem liðið hefur á sýningarnar hefur mér tekist að syngja rulluna betur og betur, þannig að núna er ég miklu sáttari við hvernig mér tekst upp heldur en ég var strax eftir frumsýninguna. Ég þarf að hætta einmitt þegar mér finnst ég vera rétt að byrja að gera þetta almennilega!

En svo skemmtilega vildi til að skömmu eftir síðustu sýninguna í Nancy var ég kallaður til Hamborgar til að hlaupa í skarðið fyrir kollega minn sem veiktist undir lok æfingatímabilsins á - einmitt - Rigoletto. Auðvitað var uppfærslan í Hamborg gjörólík því sem ég hafði verið að gera í Nancy, en sem betur fer var nægur tími til að æfa lítillega með aðstoðarleikstjóranum, sem hafði reyndar aldrei hitt leikstjórann sjálfur, en hann kunni uppsetninguna vel, svo við gátum undirbúið þetta sæmilega. Það versta við svona innstökk er að maður hittir ekki kollegana sem maður syngur með fyrr en á sviðinu með áhorfendur og hljómsveit og ljós og allt stressið líka, svo það getur verið ansi strembið. Það hjálpaði auðvitað að hlutverkið var ferskt í minninu, en þar eð uppfærslan var svo ansi öðruvísi, meiri symbólík, þurfti ég að endurhugsa allar hreyfingar og staðsetningar á sviðinu, sem var mjög spennandi. Í Nancy og hérna í Caen er kryppan í frakkanum sem ég klæðist við hirðina og svo klæði ég mig úr honum og kryppan hverfur, en í Hamborg er það sami búningurinn allan tímann og kryppan er á sínum stað.

Í fyrradag fór ég með kollegunum á eina af ströndunum sem bandamenn hertóku fyrstar í áhlaupinu Overlord hinn örlagaríka 6. júní 1944, D-day, og það var auðvitað mikil upplifun að sjá leifarnar af bryggjunum sem voru byggðar af miklu hugviti á sex dögum og notaðar eftir árásina til að flytja hergögn og byrgðir til víglínunnar sem færðist hægt og sígandi austur og suður á bóginn. Kirkjugarðarnir þarna minna á mannfórnirnar, en auðvitað voru þær smávægilegar miðað við mannfallið á austurvígstöðvunum, í umsátrunum um Leningrad og Stalingrad sérstaklega. Þegar maður er í návígi við grimmdarlega sögu tuttugustu aldarinnar kemur fátt annað uppí hugann en einfaldlega: ekki stríð! Daginn fyrir frumsýninguna fórum við til Mont St. Michel, sem er sérkennilegur og feykna fallegur staður. Það hefði verið gaman að sjá almennilegt flóð, en háflæðið þennan dag var svo lítið að maður sá varla til sjávar; ströndin er bara sendin, löng og flöt. Klettur á miðri ströndinni, flatri svo langt sem augað eygir og á honum hefur í gegnum aldirnar verið byggt mjög fallegt og áhugavert klaustur, sem var líka byggt þannig að þetta er virki um leið. Pílagrímar koma þangað á pílagrímsförinni suðurá bóginn til Santiago de Compostello og einmitt þennan dag komu um 200 prestar víðsvegar að til messu í klaustrinu og gengu síðasta spölinn berfættir á sandinum.

Í millitíðinni milli þess að hafa sungið Rigoletto í þremur óperuhúsum byrjaði ég æfingar í Cardiff á Spaðadrottningunni eftir meistara Tsjækovskíj. Þetta er í þriðja sinn sem ég syng í þessari uppfærslu, en fyrst var það í Brussel og svo í San Francisco. Þegar ég söng sömu rulluna í Antwerpen og Gent var það í annarri uppfærslu. Upphaflega var ætlunin að í hlutverki Lisu yrði Catrin Wyn-Davis, en svo óheppilega vildi til að hún rifbeinsbraut sig á sýningu á Pelleas et Melisande skömmu áður en æfingarnar byrjuðu í Cardiff, svo að þrátt fyrir einlægan ásettning hennar að reyna að syngja rulluna í fyrsta sinn reyndist það einfaldlega ómögulegt að styðja við háa legu hlutverksins, svo í hennar stað kemur rússnesk sópransöngkona sem söng þessa uppfærslu með mér í Brussel.

Óperuheimurinn er alþjóðlegur og þjóðerni kollega minna hérna í Caen eru til vitnisburðar um það. Gilda er rússnesk, hertoginn er ítalskur, Sparafucile er franskur, Maddalena er armensk, Monterone er belgískur, Marullo er hálf moldavskur, kvart úkraínskur og kvart kóreanskur, Borsa er enskur, uppalinn í Frakklandi, Ceprano er franskur af armensku bergi brotinn, frú Ceprano er frönsk, Giovanna er pólsk, paggio er kóreönsk, hljómsveitarstjórinn er ítalskur, leikstjórinn er hálf frönsk, hálf írönsk og leiktjalda og búningahönnuðurinn er þýsk. Og þá er ég ekkert að nefna kórsöngvarana eða hljómsveitarmeðlimina! Gaman að svona fjölbreytni!


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Gangi þér áfram svona vel, elsku Tommi minn.

Það er greinilega stundum í ökkla eða eyra með verkefnin en það er búið að vera brjálað að gera hjá þér síðasta árið, eiginlega síðustu tvö ár og gaman að sjá hvað þú ert á mikilli siglingu!

Er ekki einmitt fjölbreytnin í mannlífinu sem þú ert spenntur fyrir, ef ég þekki þig rétt! Það er nú eitthvað spennandi að vera að skoða sögufræga staði og "singing your heart out" í VINNUNNI!

Bestu kveðjur og knús á þig og alla þína :)

Ingibjörg systir

Ingibjörg Tómasdóttir (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 01:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband