7.3.2008 | 00:37
Tíbrártónleikar okkar hjónanna í Salnum
Við æfðum okkur í fyrsta sinn í Salnum í dag og ég verð nú að viðurkenna að mér þykir nú þónokkuð mikið til hljómburðarins koma. Það er bara ósköp þægilegt og gott að syngja þarna. Við Ljúba ætlum að vera með tónleika í Salnum sumsé á þriðjudaginn kemur, þann ellefta, en með okkur leikur meistari Kurt Kopecky á píanó. Hann valdi að nota Steinway flygilinn í þessa tónleika, en hann hafði notað Bösendorferinn á tónleikunum með henni Arndísi Höllu núna um daginn. Arndís stóð sig stórvel á sínum tónleikum - var með mikla kólóratúrufimleika þar - og við erum auðvitað að vona að við stöndum okkur sæmilega líka. Ég ætla samt ekkert að fara að reyna fyrir mér í kólóratúrunni - ég lofa því - enda er ég hræddur um að það yrði vandræðalegt!
Prógrammið okkar er að helmingi rússneskt og að hinum helmingnum ítalskt. Fyrst sönglög eftir Rachmaninov og svo aríur úr óperum eftir Tchaikovksíj og lokasenan úr Eugene Onegin. Í seinni hlutanum verða svo sönglög eftir Tosti og óperuaríur eftir Verdi og dúett úr Il trovatore. Meiri upplýsingar um þessa tónleika eru á www.salurinn.is. Sumsé alltsaman útlenskt, sem ég held sé bara gott og ábyggilega áhugavert fyrir tónlistarunnendur á höfuðborgarsvæðinu sem eru vanir að heyra alltaf einhver íslensk sönglög á flestum einsöngstónleikum. En það verður alla vegana mjög ánægjulegt fyrir okkur að fást við allt þetta drama og rómantíkina - passar okkur mjög vel. Við Ljúba byrjum bara að bæta íslensku framburðinn hennar svo að þegar við höldum tónleika hérna næst getum við sungið dúett úr einhverri íslenskri óperu - nú eða þá "Nú andar suðrið".
Við fengum smá prufukeyrslu á þessu prógrammi okkar þegar okkur bauðst að halda tónleika í Grindavíkurkirkju núna á mánudaginn og það var auðvitað yndislegt. Grindvíkingar tóku okkur feiknavel og ég vona að þetta framtak verði til þess að tónleikahald í kirkjunni hjá þeim taki kipp og verði litskrúðugt. Mér skildist að Sigvaldi Kaldalóns hafi samið stórann hluta af sínum perlum þegar hann var læknir í Grindavík og ég er ekki frá því að það væri stórmerkilegt og vel þess virði að halda vel við minningu hans með fræknu tónleikahaldi.
20.2.2008 | 10:28
Drengur góður!
Hann er einfaldlega orðinn að goðsögn í lifanda lífi - stórglæsilegur fótboltamaður - og hann virðist alltaf vera hógværðin uppmáluð. Maður þorir varla að vona að strákarnir komi vel útúr leiknum í kvöld, þeir hafa ekki verið heppnastir í leikjum á móti frönsku liðunum. En með vængjamenn einsog Giggsa og Ronaldo er nú erfitt að ímynda sér að það standi þeim einhver á sporði. Þessir strákar eru einfaldlega stórkostlegir og unun að horfa á þá spila. Einsog það er sagt á englamálinu "poetry in motion". Þeir minna hvor á sinn hátt á galdramenn einsog Eric Cantona þegar þeir æða upp völlinn á þvílíkum hraða að varnarmenn eiga í fullu fangi með að einfaldlega sjá þá bruna framhjá sér, hvað þá að reyna að stöðva þá! Ég get ekki séð leikinni í beinni, enda verður sýning hjá okkur í Óperunni, en ég verð með mínum mönnum í anda og geri bara ráð fyrir að þeir standi sig vel - einsog þeim er von og vísa. Eftir burstið á Arsenal í deildarbikarnum ætti mórallinn að vera góður og það er vonandi að liðið þurfi ekki á hárþurrkumeðferðinni að halda í hálfleik!
Giggs leikur sinn 100. leik í Meistaradeildinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2008 | 19:15
Það er gaman í óperunni!
Frumsýningin er búin og önnur sýning líka og á morgun sýnum við í þriðja sinn La traviata í Íslensku óperunni. Ég var eitthvað smeykur um að ég þyrfti að aflýsa vegna þess að ég fékk í mig þetta líka ferlega kvef á mánudagskvöldið, en ég er að verða nógu góður til að klára mig vel af þessu. Það er búið að vera frábært að fylgjast með hvað óperuáhugafólk hérna tekur vel við sér. Miðar rjúka út í miðasölunni einsog heitar lummur og núna þessa dagana er verið að ákveða hvaða dagsetningar verða á enn fleiri aukasýningum sem ættu að koma í sölu alveg á næstu dögum. Gaman að þessu. Annars er ég ekkert hissa á því. Þetta stykki er svo ótrúlega flott frá hendi Verdis gamla að maður getur ekki annað en hrifist með. Ég átti til dæmis í vandræðum með að einbeita mér að því að leggja á minnið senurnar með Violettu af því ég endaði alltaf tárvotur og miður mín yfir hvað stelpuskömmin þurfti að líða fyrir þessa hörku pabbans gamla! Ég er náttúrulega óttalegur vælukjói, en ég hugsa að ég sé reyndar ekkert einn um það. Maður hrífst einfaldlega með þegar tilfinningaátökin eru jafn gífurleg einsog raun ber vitni í þessari óperu.
Ég hef mikið verið að hugsa um framtíðarhúsnæði fyrir Íslensku óperuna síðan ég kom hingað heim, enda er brýn þörf á því. Gamla bíó hefur staðið vel fyrir sínu, en nú virðist vera kominn tími til að Óperan komist í stærra húsnæði, sem vonandi verður gott. Núna skilst mér að skilafrestur sé að renna út fyrir hönnunarhugmyndir að nýju óperuhúsi í Kópavogi og það verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig hugmyndir menn leggja fram. Mér skilst að ætlunin sé að þetta eigi að rísa í grennd við Salinn, sem ég hugsa að geti komið stórvel út, en ég held að það þurfi að taka til greina hvernig fólk gerir sér dagamun þegar það fer á óperusýningar. Það er mjög algengt að fólk byrji á að fara á veitingahús áður en sýning byrjar og fari jafnvel á krár eða bari eftir að sýningum lýkur. Þetta kemur náttúrulega best út ef veitingahúsin og krárnar eða barirnir eru nálægt leikhúsinu. Þess vegna ætti Kópavogsbær að gera í því að reyna að laða að sér góða veitingamenn til að gera góða hluti þarna á hæðinni. Um leið og sýningalífið glæðist eru nefnilega allar líkur á að veitingahús í nágrenninu geti blómstrað. Allir yrðu ánægðir með það. Það hefði nefnilega verið tryggt ef óperuflutningur hefði verið hugsaður inní nýja Tónlistarhúsinu við höfnina, sem mér finnst nú reyndar stórglæsilegt og hlakka mikið til að heyra Sinfónína þar í góðum gír. En þá hefði verið svo auðvelt að gera sér dagamun í kringum óperusýningarnar. En fyrst svo er ekki verður nýtt óperuhús einfaldlega að draga að sér nýja veitingastaði og hugguleg kaffihús og krár.
3.2.2008 | 15:31
Heilbrigð sál í hraustum líkama!?!
Rúllupylsumeistaramótið í tennis fór fram í Smáranum í Kópavogi í gærkvöld og Dalli, mágur minn, var svo almennilegur að bjóða mér að vera með. Það var þrælgaman að spila og mér tókst meira að segja að vinna einn leik, sem þá þýddi að ég lenti ekki í neðsta sæti, heldur næst neðsta! Stemmningin var gríðarlega góð og sigurvegarinn, Börkur - ElRey, vann alla sína leiki með glæsibrag! Hann var svo krýndur Rúllupylsumeistari 2008 með pomp og prakt. Uppá veggjum í Smáranum voru svo myndir af þessum líka stórmyndarlega dreng, Arnari Sigurðssyni tenniskappa, sem prýðir þá líka þessa síðu mína. Það var svo skemmtilegt að geta komist í svolítið keppnisskap að mig dauðlangar að reyna að gera eitthvað svona oftar þegar ég er á þessu flakki mínu um heiminn, en auðvitað verður það erfitt. Það væri nú samt gott að geta náð af sér þessari pínulitlu letivömb sem er því miður framaná mér. Það er bara svo hryllilega leiðinlegt að vera eitthvað að æfa sig inná líkamsræktarstöðvum. Mér finnst miklu meira gaman af því að keppa um leið og ég fæ einhverja líkamlega æfingu.
Það hefur verið mjög gott að geta sungið með góðum félögum mínum, gömlum kunningjum og nýjum líka, í kirkjulegum athöfnum þessa síðustu daga, enda kemst maður í svo allt annað samband við tónlistina í svoleiðis söng. Ég hef ekkert sungið í kór í tæpa tvo áratugi og er núna að prófa það aftur. Það er svo gjörólíkt því að vera alltaf að syngja sem einsöngvari að það tekur svolítið á að þurfa að gíra sig niður í raddstyrk, en er samt feikna gott fyrir sálartetrið. Og sálmarnir eru oft svo mannbætandi að maður hefur bara gott af að syngja þá sem oftast. Og mannsröddin er og verður alltaf það hljóðfæri sem best kemur til skila tilfinningalegum blæbrigðum í tónlist; maður kemst alltaf best í samband við hið einfaldasta en um leið mikilvægasta í lífinu þegar maður syngur í kirkju.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2008 | 15:36
Kominn á klakann - eftir langa fjarveru
Ég er kominn til Íslands og byrjaður að æfa í uppfærslu Íslensku óperunnar á La traviata eftir Giuseppe Verdi. Þar er ég að takast í fyrsta sinn á við hlutverk Giorgio Germont og hlakkar mikið til að sjá hvernig þetta fer allt saman. Meðsöngvararnir í uppfærslunni eru feiknagóðir og fara þar fremst í flokki Sigrún Pálmadóttir í hlutverki Violettu Valery, sem er hin fallna kona sem titillinn vísar til, og Jóhann Friðgeir Valdimarsson í hlutverki Alfredo Germont, sonar Giorgios gamla. Í öðrum hlutverkum eru mestanpart söngvarar sem ég hef aldrei unnið með áður, enda er orðið svo langt síðan ég flutti útí heim að það væri sennilega ómögulegt fyrir mig að þekkja alla þá gæðasöngvara sem hafa byrjað að vinna fyrir sér með gaulinu síðan ég fór. Þó er gæðingurinn Jóhann Smári Sævarsson þarna líka, en við vorum saman við nám í óperuskóla Royal College of Music í London. Mest sem keppinautar, enda vorum við þá að syngja sömu hlutverkin, en núna er ég farinn að sperra mig uppávið og syngja sem barítón og Jóhann Smári heldur sig við sína náttúrulegu bassarödd. Og svo er gaman að sjá að Bragi Bergþórsson er byrjaður að vinna fyrir sér með söngnum, kominn af þessum líka frábæru foreldrum, Bergþóri Pálssyni og Sólrúnu Bragadóttur, báðum frábærum söngvurum.
Það er erfitt fyrir mig að venjast því að tala bara íslensku dags daglega, enda er ég giftur rússneskri konu og við tölum saman á samblandi af rússnesku og ensku, þar sem við bætast orð úr tungumáli þess lands sem við erum í hverju sinni, einsog "stau" fyrir umferðarteppu ef við erum í Þýskalandi, "peage" til að borga hraðbrautartollana í Frakklandi og þar fram eftir götunum. En ég verð að viðurkenna að mér gengur illa að venjast því hvað það eru margir blaða- og fréttamenn við störf hérna núna sem eru beinlínis illa menntaðir í tungumálinu ástkæra og blöðin leyfa sér að birta fréttatexta með hreint ótrúlegum villum. Ég hef lengi fylgst með fréttum á vefsíðu Moggans og hef lengi pirrast yfir því hvað fréttatextarnir þar eru oft uppfullir af stafsetningarvillum og vondu máli, en ég sé núna að þetta er ekkert einsdæmi. Arndís systir fann leiguíbúð fyrir mig hérna niðrí miðbæ Reykjavíkur meðan ég er við störf í Óperunni og ég fæ alltaf af og til Fréttablaðið gegnum bréfalúguna. Þar eru margar góðar greinar og oft merkileg mál rædd, en í sumum tilfellum er réttritun svo ábótavant að mér bregður illilega. Ekkert meira núna í dag en oft áður. Á fimmtugustu síðu Fréttablaðsins í dag er fjallað um Jón Gunnar Geirdal og Pétur Jóhann Sigfússon. Ég kannast ekkert við þá, en get ímyndað mér að um sé að ræða einhverja spéspekinga. Hinsvegar er þar að finna myndatexta þar sem segir að Jón Gunnar sé tilbúinn að leggja fram hjálparhönd ef Ólafi Ragnari vantar nýja frasa! Að "leggja fram hjálparhönd" hefði verið kallað að "bjóða hjálparhönd" held ég, en það er samt ekki svo slæmt - að leggja fram hjálparhönd hljómar vel finnst mér, og sögnin "að vanta" hefði stýrt þolfalli, en ekki þágufalli þegar ég var hérna við störf síðast. En kannski er ég bara svona mikið eftirá og þágufallssýkin er orðin að reglu! Og til að nefna annað dæmi er frétt á annarri síðu Fréttablaðsins í dag þar sem fjallað er um Öryrkjabandalagið og fráför Sigursteins Mássonar eftir ósigur hans í kosningu stjórnar í hússjóð bandalagsins. Þar segir "Þá kemur einnig fram að dæmi séu um að fólk með hreyfihömlun hafi ekki komist í bað vikum þar sem baðherbergjum þeirra hafi ekki verið breytt með hliðsjón af fötlun þeirra". Ég er viss um að þar hefur átt að standa "vikum saman" en ekki bara "vikum". Hinsvegar er ég viss um að það hefur verið um að ræða tölvuinnsláttarmistök - orðið "saman" hefur sennilega bara þurrkast út í tölvuvinnslu fréttarinnar, enda er fréttin að öðru leyti nokkuð vel skrifuð. Og svo er að finna tvær villur á vefsíðu Moggans núna. Önnur er í erlendri frétt sem var skráð klukkan 13:12 þar sem er fjallað um fyrirhuguð hryðjuverk í Þýskalandi. Þar segir "Í kjölfarið hantóku líbönsk yfirvöld sýrlending sem grunaður er um aðild að al-Qaeda". Þar hefði átt að standa "handtóku". Og í íþróttafrétt sem var slegin inn klukkan 14:26 segir að "Íslenska B-landsliði í handknattleik vann öruggan, 32-27, sigur á Portúgölum á Posten-mótinu í Noregi í dag". Sem er auðvitað frábært, en þar hefði átt að standa "Íslenska B-landsliðið".
En mér sýnist að með tilkomu tölvuvinnslu fréttatexta hefur prófarkalestri hrakað. Þegar ég vann uppá gamla Þjóðviljanum með snillingum einsog Merði Árnasyni og Árna Bergmann og prófarkalesurum einsog Elíasi Mar þá hefði þágufallsvillum verið komið fyrir kattarnef hið snarasta og viðkomandi blaðamaður fengið áminningu um ábyrgð okkar gagnvart tungumálinu sem við notum til að tjá okkur. Ég verð nú að viðurkenna að pirringurinn vegna ritvillnanna er aðallega vegna þess hvað Mogginn leyfir sér að birta vonda fréttatexta á vefsíðum sínum. Þar hef ég rekist á villur í hvert sinn sem ég hef verið að skoða fréttirnar á flakki mínu um heiminn og hef alltaf orðið jafn miður mín vegna ónákvæmninnar. Mér finnst að fréttablöð eigi að leggja metnað sinn í að skrifa fréttir á góðri íslensku og rétt stafsettar, svo fólk hafi gott aðhald með tungumálinu.
Menning og listir | Breytt 16.1.2008 kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2007 | 17:12
Gömlu vikudagana aftur - takk!
19.10.2007 | 10:21
Salome tælandi og svo fauk hausinn!
Þá er frumsýningin afstaðin og reyndar líka önnur og þriðja sýningin líka. Í fyrradag var sýningin svo tekin upp á myndrænu formi, svo það verður kannski hægt að eiga einhverjar myndir af öllu klabbinu - ég splæsi hérna með mynd af sjálfum mér í þessum líka innri sálarkvölum vegna freistinganna sem þessi syndum hlaðna prinsessa er að leggja fyrir prédikarann góða, félaga Jóhannes skírara!
Það verður að viðurkennast að það er varla hægt að ímynda sér betri kringumstæður til að prófa svona nýja rullu í fyrsta sinn. Hérna eru músíkantarnir þrælfínir og allar aðstæður til fyrirmyndar, en áheyrendurnir hérna hafa aldrei heyrt tuttugustu aldar óperu í sínum tónleikasölum, svo væntingarnar eru þægilega lágar án þess að gæðakröfurnar séu alltof lágar! En ég verð líka að segja að þessi rulla passar mér ótrúlega vel. Hún liggur einhvernvegin svo þægilega að mér finnst ég ekki þurfa að hafa nokkurn skapaðan hlut fyrir því að syngja þetta. Og viðtökurnar hafa verið skemmtilega góðar.
Thessaloniki, einsog svo margar grískar borgir, að mér skilst, er á mörkunum að vera feiknaljót. Hér eru svotil öll hús eins - steinsteypt 5 til 6 hæða hús með svölum. Fullkomlega ferköntuð og til þess gerð að koma sem flestum íbúum inní þau. Kunnugir hafa sagt mér að borgin hafi verið mjög falleg á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar með glæsilegum villum og stórglæsilegum Art Deco byggingum, en vandræðin voru þau að þau voru flest í eigu gyðinga. Í seinni heimstyrjöldinni tókst nasistunum að flytja yfir 90 prósent af öllum gyðingum í Thessaloniki í útrýmingarbúðir og eftir stríðið fór restin svo til Ísraels. Sem þýddi að ógurlegur fjöldi húsa stóð yfirgefinn og án eigenda. Byggingabröskurum tókst svo að sannfæra borgaryfirvöld um að jafna við jörðu þessar glæsibyggingar og byggja "fúnksjónalísk" hús sem gætu hýst hina nýju Grikkja, lausa við nasista og eins við Tyrki, sem höfðu verið drottnarar svo lengi fram að 19 öldinni. Grikkir vildu koma sér upp sinni nýju sjálfsímynd án of mikilla drauga úr fortíðinni. Sem er að mörgu leiti skiljanlegt, en skelfilega sorglegt frá fegurðarsjónarhorninu!
Ég hef verið að vinna með Grikkjum sem þekkja íslendinga og nota tækifærið að senda kveðjur, ef einhver sem slysast til að lesa þetta tuð mitt vildi vera svo almennilegur að koma á framfæri. Angela nokkur var sviðsstjóri í uppfærslunni sem Kolli Ket var í á Medeu og hún sendir honum kærar kveðjur og ber honum stórvel söguna! Hún var aðstoðarleikstjóri hérna hjá mér. Og Dafne Evangelíus sendir Mörtu Halldórsdóttur kærar kveðjur. Dafne er að syngja hlutverk Herodíasar og er sérstaklega elskuleg kona.
10.10.2007 | 11:55
Thessaloniki
Það er orðið ansi langt síðan ég skrifaði síðast, enda fátt markvert sem var að drífa á mína daga. Sumarið er oftast hálfgerð gúrkutíð, einsog það er kallað í blaðamennskunni, öll óperuhúsin lokuð og þeir sem eru að syngja á tónlistarhátíðum eru einu óperusöngvararnir sem vinna á sumrin.
Ég er núna í Grikklandi og er að syngja hlutverk Jóhannesar skírara í fyrsta sinn. Heilagur maður og allt það - ég er vanari því að vera í hlutverki morðingja, drullusokka af ýmsu tagi og hermanna, þannig að það er skemmtileg tilbreyting að vera góði gæinn! Ég þarf ekki að drepa nokkurn mann heldur er ég drepinn - hálshöggvinn. Ég er eini útlendingurinn hérna - allir hinir söngvararnir eru heimafólk - og þetta er í fyrsta sinn sem ópera eftir tuttugustu aldar tónskáld er flutt hérna, svo það verður spennandi að sjá hvort tónleikahússstjórninni takist að selja miðana á sýningarnar! Ég er mjög hrifinn af þessu tónleikahúsi, sem var byggt til að hýsa ráðstefnur, tónleika og óperusýningar - svona hús hefði verið upplagt sem tónlistar- og ráðstefnuhús í Reykjavík.
Í dag er generalprufan og frumsýningin verður svo á föstudaginn. Sendi skýrslu eftir það.
17.8.2007 | 16:00
Taugatrekkjandi fyrirsöngur
Ég hef svosem ekkert á móti því að syngja fyrir, en það reynist alltaf vera meira taugastrekkjandi heldur en ég ímynda mér fyrirfram. Maður er svalur og óhræddur allt fram að síðustu mínútunum fyrir fyrirsönginn, en svo fæ ég alltaf smá hnút í magann og stressast rétt áður en ég þarf að syngja. Svo setur maður bara í gír og allt gengur fyrir sig einsog það á að gera. Það er einfaldlega hábölvað að þurfa að gera þetta, en án fyrirsöngs af og til er erfitt að vera ráðinn. Listrænir stjórnendur vilja oft frekar heyra í söngvaranum "in the flesh" heldur en reyna að ráða af upptökum hvernig röddin hljómar í raun og veru.
Nýja umboðsskrifstofan mín skipulagði fyrirsöng fyrir nokkra af sínum söngvurum í Pesaro í gær og líka í síðustu viku, en ég sló til og tók þátt í gær. Rossini óperuhátíðin stendur yfir núna og tækifærið var notað þar eð margir listrænir stjórnendur óperuhúsa voru saman komnir í borginni til að sjá sérfræðingana spreyta sig á leikfimi þessa matglaða snillings. Við Lúba keyrðum héðan að heiman eftir hádegið á miðvikudaginn og komum til Pesaro rétt fyrir miðnætti. Fyrirsöngurinn var svo seinnipartinn í gær og við vorum komin aftur heim í nótt sem leið. Ég söng aríu Hollendingsins fljúgandi, einsog ég geri oftast núna um þessar mundir og svo aríu Alekós eftir Rachmaninoff - frábær tónlist - ekkert alltof strembin raddlega og frábærlega áhrifarík þegar píanistinn er góður - og ég er svo heppinn að Lúba mín er frábær píanisti! Það er allt útlit fyrir að eitthvað gott komi útúr þessu, en maður veit aldrei fyrr en búið er að setja penna á blað og samningur er undirritaður, svo ég bíð bara og sé til.
Í Pesaro gistum við hjá fólki sem er tengt hinum mikla söngmeistara Luciano Pavarotti, en hann býr einmitt í Pesaro - í það minnsta af og til. Mér varð einmitt hugsað til hans í gær þegar ég var að bíða eftir að syngja sjálfur í þessum fyrirsöng. Ef hann hefði þjáðst af sama sviðsskrekk og karl faðir hans, einsog sagan hermir, þá hefði tónlistarheimurinn orðið fátækari fyrir vikið. Karlinn var víst með fína og hljómmikla rödd, en varð svo stressaður þegar hann átti að syngja opinberlega að hann missti alla stjórn á sér og röddinni. Kollegar mínir sem voru að syngja fyrir voru í sumum tilfellum svo rosalega fínir á æfingunni með píanistanum og svo þegar þeir og þær voru að hita röddina upp í búningsherbergjunum að það var stundum ótrúlegt að heyra muninn hvernig þau hljómuðu þegar á sviðið var komið. Stundum voru þau ekki nema skugginn af sjálfum sér. Þetta er skrítin skeppna - stressið!
7.8.2007 | 09:42
Gaspard de Besse - ribbaldi eða hetja?
Þorpið okkar lætur lítið yfir sér og þar er lítið um að vera dags daglega. Það heitir Besse-sur-Issole og það tekur okkur nokkrar mínútur að keyra þangað. Við heimsækjum aðallega pósthúsið og apótekið þegar við þurfum að senda bréf eða kaupa plástra og vítamín. En á sumrin eru helgarnar stundum hlaðnar spennu og í þorpinu er uppi fótur og fit til að undirbúa túristasýninguna á ævintýrum Gaspard de Besse þar sem lífi er blásið í sum af frægustu ævintýrum hans.
Þetta var ljúfur og kraftmikill stráklingur sem fæddist 9. febrúar 1757 í þorpinu okkar. Hann tók þátt í leikjum og sýningum á sumrin þegar á unglingsárunum og vakti athygli fyrir fimi og styrk. Hermenn konungs tóku fljótlega eftir honum og hann var fenginn til að skrá sig í herinn. En þegar hann hjálpaði félaga sínum að flýja úr fangelsi var úti um friðinn og hann var eftirlýstur sem glæpamaður. Fljótlega bættust fleiri í hópinn og úr varð gengi sem varð frægt sem Gengi Gaspards. Þessi hópur óþokka, einsog ríka fólkið í Provence kallaði þá, rændi þá ríku og gaf fátækum. Þeir sátu oft fyrir hestvögnum aðalsfólks og rændu öllu því sem hægt var að finna. Hann sóttist sérstaklega eftir að ræna frá skattaeftirlitsmönnum konungsins og dreifa fengnum meðal þeirra fátækustu. En þessi franski Hrói höttur var svo sjarmerandi og glæsilegur að hann varð fljótlega frægur fyrir að heilla kvenþjóðina. Og það voru ekki einungis bænda og þorpsstelpurnar sem hann naut ásta með heldur voru sögusagnirnar um að aðalsdömur sem höfðu orðið fórnarlömb gengisins hafi átt safaríkar og heitar minningar um fundina með honum.
Frægustu ummæli hans voru credo gengisins "það er allt í lagi að hræða, en aldrei að drepa" og eins að það væri tvennt sem plagaði héraðið; þingið í Provence og Mistralvindurinn. Hugmyndir hans áttu sérstaklega vel uppá pallborðið á þessum róstusömu byltingartímum í Frakklandi. Hann var að endingu fangelsaður og dæmdur til dauða, þó svo hann hafi reyndar aldrei drepið nokkurn mann. Hann var hengdur og síðan afhausaður á aðaltorginu í Aix-en-Provence haustið 1781, aðeins 24 ára gamall.
Yfirvöldin héldu að þannig væru þau laus við þennan ribbalda sem hæddi þau hvar sem hægt var, en Gaspard varð fljótt að goðsögn í Frakklandi og frægur fyrir ýmsar hetjudáðir sínar. Árið 1935 var gerð bíómynd um hann og hann er aðalsöguhetja myndasögubóka þar sem allskyns ævintýri verða á vegi hans.
Og það er líka hægt að kaupa feiknagott rauðvín, Gaspard de Besse Merlot 2005, sem hefur fengið frábæra dóma í vínsmökkunarkeppnum.