Heyskapur í sól og blíðu

Við fórum á fætur snemma í dag. Hitinn var ekki nema ca. 25 gráður um áttaleytið, svo það var allt útlit fyrir að það yrði ekkert alltof heitt þegar á daginn liði. Og það varð ekki meira en um 30 gráður um miðjan dag. Alla vegana ákvað ég að verja deginum í að slá sinuna sem er búin að vera að sveiflast þetta í vindinum síðan við komum hingað heim eftir langa veru í Belgíu fyrripart sumarsins. Ég hafði drifið mig í að slá í vor, en eftir það rigndi hérna í nokkra daga í maílok og auðvitað varð úr þessi líka rosa spretta - þegar við komum hingað í júlíbyrjun var grasið orðið hærra en mér í mittishæð. En svo hefur ekkert rignt í sumar, svo þetta er alltsaman uppþornað og orðið að harðri sinu.

Þar eð vélljárinn minn er bilaður og í viðgerð, sem er orðin ansi löng - rúmar tvær vikur, ákvað ég að treysta á Central Park garðsláttuvélina. Þvílíkur unaður til að byrja með! Hún reif þetta illgresi allt í sig einsog ekkert væri og ég hélt að þessi ítalska gæðavél væri til þess gerð að vinna á öllu því sem ég bar hana að - en ég hefði átt að vita betur. Hún gafst upp rétt eftir hádegið! Svo eina lausnin var að reyna að redda þessu með því að skreppa í bæinn (næsti bærinn við þorpið okkar er Brignoles) og fá varahluti snögglega og án vífillenginga - en komst þá að því að það væri dýrara að kaupa nýtt blað til að slá með heldur en að kaupa einfaldlega nýja sláttuvél! Varahlutirnir eru dýrari en nýtt tæki - ótrúlegt! Svo ég keypti einfaldlega nýja sláttuvél fyrir lítinn pening og prófaði hana í seinnipartinn til að geta borið saman við Central Parkinn góða. Ég var nú ekki með háar væntingar. Central Park var búinn að heilla mig svo gjörsamlega að ég bjóst ekki við miklu. En þvílíkur munur! Hún malar einsog heimavanur köttur meðan hún tætir í sig sinuna og illgresið sem óhjákvæmilega er innanum og stoppar ekki við nokkurn hlut; spýtir útúr sér greinum sem eru svo ónærgætnar að vera eitthvað að þvælast fyrir henni og hoppar fimlega yfir grjót og steina sem liggja í felum. Hún er yndisleg! En það eina sem skyggir á gleðina og ánægjuna er að hún er nafnlaus! Hún heitir ekki nokkurn skapaðan hlut! Ég er búinn að vera að kíkja á allar merkingar með henni og það eina sem ég finn er að hún var líka smíðuð á Ítalíu, einsog Central Park, en er svo númer EP 350. En hvað heitir hún? Ég get ómögulega kallað vélina EP 350. -Er á leiðinni að slá með EP 350! Nei, það gengur ekki upp. Hvað ætti ég að kalla hana? Ég er ekki ennþá búinn að finna útúr því.


Velkominn styrkur

HamrahlíðarkórinnHamrahlíðarkórinn var að fá styrk úr tónlistarsjóði og ég verð að viðurkenna að mér finnst það mjög gott! Á þeim árum sem ég var í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð þurftum við að ganga í hús til að selja harðfisk, rækjur og hitt og þetta sem gæti gagnast vel í heimilishaldi svo hægt væri að safna peningum til að fjármagna ferðir kórsins. Flestir tóku okkur vel og það var alltaf sérstaklega gaman að taka þátt í að reyna að minnka þá fjárhagslegu byrði sem fjölskyldur kórmeðlima þurftu óhjákvæmilega að axla til að borga fyrir flug og uppihald á ferðalögunum. Sennilega þurfa kórmeðlimir enn að gera þetta, svo það er vonandi að þeim sé vel tekið. Og þegar menningarstofnanir einsog kórarnir í Hamrahlíðinni fara erlendis er það betri landkynning en flest annað því kórstjórinn Þorgerður Ingólfsdóttir er svo ótrúlega lífleg og heillandi að það er skiljanlegt að fólk sem kynnist henni vilji heimsækja landið sem ól hana og svo er hljómurinn ótrúlega fallegur á kórsöngnum sem hún laðar fram í þeim sem syngja með kórunum! Hamrahlíðarkórinn - til hamingu!
mbl.is Úthlutað úr tónlistarsjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórsöngvari

Það er sérstaklega gaman að sjá að Mogginn tekur eftir stórvirkjum Kristins Sigmundssonar. Hann er frægastur íslenskra óperusöngvara í dag og verðskuldar það sannarlega. Hann er með frábæra rödd með einstakan litblæ, stórfyndinn og sannfærandi leikari og mikill öðlingur. Íslenskir óperuáhugamenn sem hafa einhverja möguleika á að fara til New York og sjá meistarann á sviði Metrópólitan óperunnar ættu að gera það sem oftast!
mbl.is Undir stjórn Domingo
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðhátíð

Ég get ómögulega ímyndað mér matvöru og byggingarvöruverslanir opnar 17. júní heima á Íslandi þegar ég var að alast upp. Það hefði bara aldrei verið samþykkt af stéttarfélögunum. Hvernig þetta er núna veit ég auðvitað ekki, hef ekki verið á Íslandi á þjóðhátíðardaginn svo lengi að ég hef ekki nokkra hugmynd um hvernig þetta gengur allt fyrir sig núna. En hérna í Frakklandi eru stærstu stórmarkaðirnir opnir í dag - á Bastilludaginn - 14. júlí! Við erum á leiðinni í matvöruinnkaup og svo ætla ég að fara í byggingarvöruverslun til að kaupa hitt og þetta fyrir húsið. Við höfum ekki verið hérna neitt að ráði síðan við fluttum inn, svo það er óteljandi dútl og smá lagfæringar sem ég þarf að taka mér fyrir hendur. Sem er fínt - kann vel við það.

En í París voru miklar skrúðgöngur og þar var haldið uppá daginn með pomp og prakt. Nýi forsetinn bauð mektarmönnum og konum frá hinum Evrópulöndunum að koma og sjá hvað Frakkarnir halda vel uppá daginn og eflaust spjalla eitthvað um frekari samvinnu. En fyrir nokkrum dögum síðan rakst ég á frétt sem sagði frá því að Sarkozy muni bregða útaf venjunni sem forverar hans höfðu komið á og láta vera að náða nokkur þúsund fanga á þjóðhátíðardaginn! Honum finnst nefnilega ekki sæmandi forseta að náða fanga og losna við þá úr fangelsum til þess eins að leysa húsnæðisvandamál fangayfirvalda. Á síðasta ári náðaði Chirac, forveri Sarkozys, til dæmis um 3000 fanga á Bastilludaginn og það virkaði ekki nema einsog dropi í hafið - afbrotamönnum fjölgar svo mikið í fangelsunum að eitthvað verður að gera í málunum. En spurningin er bara hvort þetta sé rétta leiðin. Ég sá í heimildarmynd á BBC að kynferðisafbrotamönnum í Bretlandi er oft ekki stungið í steininn af því að fangelsin eru alltof þröngt setin. Og þeir fá bara áminningar og er síðan sleppt aftur.

Ég held það þurfi að endurskoða hvernig fangelsi eru fjármögnuð - af því um það snýst allt saman, hversu miklu þjóðfélagið þarf að kosta til svo afbrotamönnum sé haldið bakvið lás og slá - og þar þarf til smá byltingu. Frakkarnir gætu gert það vel. Mér finnst að fangar eigi að vinna við eitthvað sem er arðskapandi - einsog múrsteina eða plastpokagerð - á smá launum og þannig borga þeir að hluta til fyrir setuna í steininum um leið og þeir vinna sér inn pening til að eiga eftir setuna. Það ætti alla vegana að vera hægt að standa undir launakostnaði fangavarðanna með svoleiðis stússi. Og þannig væri hægt að finna meiri peninga til að byggja fleiri fangelsi fyrir alla afbrotamennina - sem væri gott fyrir þá og okkur hin líka!


mbl.is Bastilludagurinn haldinn hátíðlegur í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðmeti

Í fyrradag, daginn sem Alan Johnston var frelsaður úr prísundinni eftir að hafa verið rænt á götum Gaza, og daginn sem bretar og vinir þeirra ástralar voru að yfirheyra lækna og aðra heilbrigðisstarfsmenn vegna hugsanlegrar þáttöku í misheppnuðum sprengjuárásum í Bretlandi, komu vinir okkar í heimsókn og auðvitað var aðalumræðuefnið í þessu boði okkar það sem virðist standa okkur næst - matur! Alvarlegir viðburðir á alþjóðavettvangi eru manni auðvitað ofarlega í huga, en það sem oft sameinar okkur farandlistamennina er það sem maður þarf að innbyrða til að hafa krafta til að koma fram á sviði.

Ég þreytist aldrei á að vegsama íslenska lambakjötið og í þetta sinn lét ég ekker verða af því heldur. En þessir vinir okkar; hann er hálf ítalskur og hálf belgískur og hún er hálf finnsk og hálf ensk, vildu að eitthvað meira en þessar lofræður mínar væri reitt fram - þau vildu fá að smakka íslenskt lambakjöt! Það er erfitt fyrir nokkurn mann sem ekki hefur fengið að smakka þetta stórkostlega kjöt að ímynda sér þvílíkt góðmeti um er að ræða. Vandræðin eru þau að hérna í Brussel er erfitt að kaupa íslenskt lambakjöt og mér hefur hingaðtil ekki tekist að finna nokkurn mann sem getur selt það í sæmilegu magni. Auðvitað verður maður að treysta á góðvild annarra að koma með læri hér og hrygg þar þegar flogið er hingað til Evrópu, en það væri miklu betra ef hægt væri að kaupa þetta í venjulegum búðum hérna. Mér skilst að einhver hreyfing sé á viðræðum við Evrópusambandið um að leyfa innflutning á einhverjum matvælum frá Íslandi, en ég vill bara lambakjöt! Hjálpið mér og öllum þeim sem vilja fá að bragða heimsins besta lambakjöt - íslendingar - farið að flytja út lambakjöt til Evrópu!


Óperukveðja

Ég hef verið með fiðring í fingrunum að geta bloggað sjálfur eftir að hafa fylgst með félögum mínum blogga lengi vel og einungis gert athugasemdir við þeirra skrif, án þess að hafa frumkvæðið sjálfur. Þetta hefur reynst mér næstum óbærilegt hingaðtil og uppá síðkastið hefur mér æ oftar hugsað til þess að hugmyndin að því að blaðra sjálfur á mínu eigin bloggi sé í sjálfu sér ekkert svo fjarstæðukennd. Sjáum til, kannski gefst ég upp fljótlega og þetta verður þá ekkert annað en blaður útí bláinn.

resize_image[4]Ég er um þessar mundir að syngja í óperuuppfærslu í Gent á Spaðadrottningunni eftir Pjotr Tsjækovskí, þar sem ég er í hlutverki greifans Tomskí - nafnið passar vel! - sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Hinsvegar er frægasta söngkona Belga, Rita Gorr, í hlutverki greifynjunnar - og það er merkilegt - því hún er núna 81 árs og þetta er síðasta óperuuppfærsla hennar. Hún kveður hérmeð heim óperunnar og stígur ekki framar á svið í óperuhlutverki. Hún ákvað fyrir löngu síðan að þetta yrði hennar svanasöngur, en það breytir því hinsvegar ekki að hún á í stökustu vandræðum með að sætta sig við að hérmeð sé ferill hennar sem flytjanda á enda. Búinn. Auðvitað var þetta hennar eigin ákvörðun, en ef heilsan leyfði það, þá er ég viss um að hún myndi halda áfram að syngja opinberlega. Á sýningunni í gær veitti borgarstjórinn henni heiðursmerki borgarinnar, enda er hún fædd í Gent, og áheyrendurnir í óperunni voru ósparir á klappið og kveðjurnar, hróp og köll, bravó, brava! Við komum framá svið í lokin í pörum og ég leiði hana alltaf mér við hlið og í gær voru fagnaðarlætin gríðarleg - um leið og við birtumst risu allir áhorfendur úr sætum sínum og hrópuðu og klöppuðu. Sannarleg "standing ovation" sem virtist aldrei ætla að enda. Þessi elskulega dama tók við kveðjum áheyrendanna klökk og djúpt snortin og eftirá hélt hún áfram að segja okkur, yngri kollegum sínum, að við verðum að grípa öll þau tækifæri sem okkur bjóðast til að vinna af hörku, standa okkur vel og njóta þessa stórkostlega starfs sem við höfum valið okkur. "Profitez de votre jeunesse" var meðal þess sem hún sagði okkur. Mér finnst ég alltaf eldgamall, enda hefur ævisagan mín hingaðtil verið frekar fjölskrúðug, svona í samanburði við marga aðra, en auðvitað er ég ekki nema fertugur og í samanburði við þessa ágætis konu er ég ekki nema hálfnaður - ennþá gætu bestu árin verið framundan, hver veit! En ég held samt að hún þurfi ekki að líta til baka með alltof mikilli eftirsjá. Það eru ekki margir söngvarar sem öðlast viðlíka frama og hún gerði á sínum tíma - hljóðritaði með Solti og fleiri snillingum - og söng flestar af bestu rullunum í sínu fagi og það í bestu óperuhúsunum á sínum 58 ára ferli. En það er samt erfitt að kveðja. Ég get vel skilið það. Hvað tekur svo við? Eftir að hafa eytt öllum sínum starfsárum á óperusviðinu getur verið erfitt að sætta sig við að hætta þessu brölti og taka sér frí frá starfinu.

En tilfellið er að það er ekki alltaf undir okkur komið hvort við höfum einhverja vinnu eða ekki - aðrir ákveða það oft fyrir okkur. En það er augljóst að meðan maður hefur einhverja vinnu og fær tækifæri til að gera það sem maður fær ómælda ánægju af er best að gleyma því ekki að athafnir okkar í dag verða minningar elliáranna. Það þýðir að best sé að gera ekkert með hangandi hendi - leggja sig vel fram. Það er margt sem ég sé eftir að hafa gert, eða látið ógert, en mér sýnist að lærdómurinn af að kynnast þessari merku konu geti hugsanlega verið sá að það sé best að einbeita sér að því sem vel hefur farið. Að reyna að búa til og eiga góðar minningar. Vonandi tekst það!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband