Þjóðhátíð

Ég get ómögulega ímyndað mér matvöru og byggingarvöruverslanir opnar 17. júní heima á Íslandi þegar ég var að alast upp. Það hefði bara aldrei verið samþykkt af stéttarfélögunum. Hvernig þetta er núna veit ég auðvitað ekki, hef ekki verið á Íslandi á þjóðhátíðardaginn svo lengi að ég hef ekki nokkra hugmynd um hvernig þetta gengur allt fyrir sig núna. En hérna í Frakklandi eru stærstu stórmarkaðirnir opnir í dag - á Bastilludaginn - 14. júlí! Við erum á leiðinni í matvöruinnkaup og svo ætla ég að fara í byggingarvöruverslun til að kaupa hitt og þetta fyrir húsið. Við höfum ekki verið hérna neitt að ráði síðan við fluttum inn, svo það er óteljandi dútl og smá lagfæringar sem ég þarf að taka mér fyrir hendur. Sem er fínt - kann vel við það.

En í París voru miklar skrúðgöngur og þar var haldið uppá daginn með pomp og prakt. Nýi forsetinn bauð mektarmönnum og konum frá hinum Evrópulöndunum að koma og sjá hvað Frakkarnir halda vel uppá daginn og eflaust spjalla eitthvað um frekari samvinnu. En fyrir nokkrum dögum síðan rakst ég á frétt sem sagði frá því að Sarkozy muni bregða útaf venjunni sem forverar hans höfðu komið á og láta vera að náða nokkur þúsund fanga á þjóðhátíðardaginn! Honum finnst nefnilega ekki sæmandi forseta að náða fanga og losna við þá úr fangelsum til þess eins að leysa húsnæðisvandamál fangayfirvalda. Á síðasta ári náðaði Chirac, forveri Sarkozys, til dæmis um 3000 fanga á Bastilludaginn og það virkaði ekki nema einsog dropi í hafið - afbrotamönnum fjölgar svo mikið í fangelsunum að eitthvað verður að gera í málunum. En spurningin er bara hvort þetta sé rétta leiðin. Ég sá í heimildarmynd á BBC að kynferðisafbrotamönnum í Bretlandi er oft ekki stungið í steininn af því að fangelsin eru alltof þröngt setin. Og þeir fá bara áminningar og er síðan sleppt aftur.

Ég held það þurfi að endurskoða hvernig fangelsi eru fjármögnuð - af því um það snýst allt saman, hversu miklu þjóðfélagið þarf að kosta til svo afbrotamönnum sé haldið bakvið lás og slá - og þar þarf til smá byltingu. Frakkarnir gætu gert það vel. Mér finnst að fangar eigi að vinna við eitthvað sem er arðskapandi - einsog múrsteina eða plastpokagerð - á smá launum og þannig borga þeir að hluta til fyrir setuna í steininum um leið og þeir vinna sér inn pening til að eiga eftir setuna. Það ætti alla vegana að vera hægt að standa undir launakostnaði fangavarðanna með svoleiðis stússi. Og þannig væri hægt að finna meiri peninga til að byggja fleiri fangelsi fyrir alla afbrotamennina - sem væri gott fyrir þá og okkur hin líka!


mbl.is Bastilludagurinn haldinn hátíðlegur í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sælir,

Svo má benda á starfið sem Pimlico Opera vinnur undir stjórn Wasfi Kani hér í Englandi. Þar er sett upp ein óperuuppfærsla á ári, í fangelsi, með þáttöku fanga. (Fangakórinn...). Kannski þarna sé markhópur íslensku óperunnar?

ÓlKj

Óli Kjartan (IP-tala skráð) 15.7.2007 kl. 09:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband