1.8.2007 | 20:35
Heyskapur í sól og blíðu
Við fórum á fætur snemma í dag. Hitinn var ekki nema ca. 25 gráður um áttaleytið, svo það var allt útlit fyrir að það yrði ekkert alltof heitt þegar á daginn liði. Og það varð ekki meira en um 30 gráður um miðjan dag. Alla vegana ákvað ég að verja deginum í að slá sinuna sem er búin að vera að sveiflast þetta í vindinum síðan við komum hingað heim eftir langa veru í Belgíu fyrripart sumarsins. Ég hafði drifið mig í að slá í vor, en eftir það rigndi hérna í nokkra daga í maílok og auðvitað varð úr þessi líka rosa spretta - þegar við komum hingað í júlíbyrjun var grasið orðið hærra en mér í mittishæð. En svo hefur ekkert rignt í sumar, svo þetta er alltsaman uppþornað og orðið að harðri sinu.
Þar eð vélljárinn minn er bilaður og í viðgerð, sem er orðin ansi löng - rúmar tvær vikur, ákvað ég að treysta á Central Park garðsláttuvélina. Þvílíkur unaður til að byrja með! Hún reif þetta illgresi allt í sig einsog ekkert væri og ég hélt að þessi ítalska gæðavél væri til þess gerð að vinna á öllu því sem ég bar hana að - en ég hefði átt að vita betur. Hún gafst upp rétt eftir hádegið! Svo eina lausnin var að reyna að redda þessu með því að skreppa í bæinn (næsti bærinn við þorpið okkar er Brignoles) og fá varahluti snögglega og án vífillenginga - en komst þá að því að það væri dýrara að kaupa nýtt blað til að slá með heldur en að kaupa einfaldlega nýja sláttuvél! Varahlutirnir eru dýrari en nýtt tæki - ótrúlegt! Svo ég keypti einfaldlega nýja sláttuvél fyrir lítinn pening og prófaði hana í seinnipartinn til að geta borið saman við Central Parkinn góða. Ég var nú ekki með háar væntingar. Central Park var búinn að heilla mig svo gjörsamlega að ég bjóst ekki við miklu. En þvílíkur munur! Hún malar einsog heimavanur köttur meðan hún tætir í sig sinuna og illgresið sem óhjákvæmilega er innanum og stoppar ekki við nokkurn hlut; spýtir útúr sér greinum sem eru svo ónærgætnar að vera eitthvað að þvælast fyrir henni og hoppar fimlega yfir grjót og steina sem liggja í felum. Hún er yndisleg! En það eina sem skyggir á gleðina og ánægjuna er að hún er nafnlaus! Hún heitir ekki nokkurn skapaðan hlut! Ég er búinn að vera að kíkja á allar merkingar með henni og það eina sem ég finn er að hún var líka smíðuð á Ítalíu, einsog Central Park, en er svo númer EP 350. En hvað heitir hún? Ég get ómögulega kallað vélina EP 350. -Er á leiðinni að slá með EP 350! Nei, það gengur ekki upp. Hvað ætti ég að kalla hana? Ég er ekki ennþá búinn að finna útúr því.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.