Færsluflokkur: Bloggar

Snjór og meiri snjór!

Snjókoman í Madríd séð frá listamannainnganginum í Teatro RealÍ morgun vaknaði ég við að sjá þökin á húsunum í nágrenninu undir blíðlegri hvítri ábreiðu fyrstu snjóa ársins í Madrid og undir hádegi var búið að loka flugvellinum hérna. En satt best að segja hefur það lítil sem engin áhrif á það sem ég er að fást við. Það er nefnilega komið að því að takast á við heimsfrumsýningu - loksins. Ég er búinn að vera að undirbúa mig síðustu vikurnar og mánuðina fyrir æfingarnar sem voru að hefjast hérna í Madrid núna í þessari viku á glænýrri óperu - Faust-bal - þar sem ég er í hlutverki undirheimaherrans, fallna engilsins, Mefistófeles. Og þetta er allt farið að taka á sig hina bestu mynd og það verður spennandi að sjá hvernig fer. Hingaðtil er lítið um uppsetninguna að segja, svo ég læt bíða betri tíma að gefa frekari skýrslu ...


Lady Macbeth í Düsseldorf

DOR Lady 02Þegar æfingar hafa verið kaótískar og lítið um rennsli á öllu stykkinu sem maður er að æfa getur oft verið gott að renna nokkrum sinnum í lokin, en í þetta sinn er svoleiðis lúxus ekki fyrir að fara hérna hjá okkur í Düsseldorf. Við höfum ekki fengið eina einustu æfingu þar sem allt hefur gengið snurðulítið fyrir sig, svo maður er pínulítið kvíðinn fyrir hvort okkur eigi eftir að takast að komast frá frumsýningunni stórslysalaust. Og verkið er flókið. Hérna erum við að setja á svið óperuna Lady Macbeth frá Mzensk héraði eftir Dmitri Shostakovitsj og það er í annað sinn á þessu ári hérna hjá þessu kompaníi, en í vor var þessi uppfærsla sett upp í Duisburg, sem er hitt húsið sem Deutsche Oper am Rhein rekur.

Í kvöld fáum við nú samt vonandi fullt rennsli, enda síðasta æfing fyrir generalprufuna sem verður á morgun og svo frumsýnum við á föstudagskvöldið. Það verður nú að viðurkennast að karlfauskurinn sem ég leik er bölvað ómenni og það er óvíst að áhorfendur eigi eftir að kenna í brjósti um hann þegar tengdadóttirin eitrar fyrir honum með rottueitri sem hún setur útí uppáhalds svepparéttinn hans og drepur hann þannig. Hann engist um í sárustu kvölum, en maður hugsar nú eiginlega með sér að farið hafi fé betra og þetta sé bara gott á hann, helvítið af honum! Samfarir milli ansi margra karakteranna eru gríðarleg þungamiðja þessarar uppfærslu en minn maður verður útundan, án þess að hann hafi nokkurn skapaðan hlut um það að segja, og honum er það lítið að skapi. Honum finnst sonurinn ekki standa sig nógu vel í að fullnægja frúnni og vill ólmur og uppvægur komast í rúmið með tengdadótturinni, en þegar hann ætlar að láta til skarar skríða uppgötvar hann að þá, bara rétt í því, hafði hún átt í feikna samförum með vinnumanninum nýja í verksmiðjunni hans! Hann refsar kauða, en tengdadóttirin sér þá við karlinum og drepur hann rétt sí svona með sveppunum sínum! Kollegarnir mínir Viktoria Safronova og Sergej Naida eru hérna á myndinni ósköp vel afslöppuð eftir velheppnaðar samfarir Katarínu og Sergej.

Photo023Fyrir nokkrum árum síðan tók ég þátt í uppfærslu í Trondheim í Noregi á óperunni Eysteinn av Nidaros sem Sverrir konungur og núna í sumar var aftur hóað í mig til að vera með aftur. Að þessu sinni var uppfærslan önnur, þótt óperan hafi verið sú sama, en það var mjög gaman að koma aftur til baka til frænda okkar þarna í Þrándheimi og njóta sumarblíðunnar, þegar hennar naut við. Í þetta sinn var ég ekki í víkingaklæðum heldur íklæddur "kamouflage" búningi að skæruliðahætti og ein af innkomum mínum á sviðið var í gömlum amerískum jeppa frá síðari heimstyrjöldinni þar sem á eftir mér hlupu skæruliðarnir mínir öskrandi og æpandi eftir að hafa drepið alla sem í veginum höfðu verið og losnað við alla mótstöðu við Sverri konung. Óperunni lauk svo með pomp og prakt inní kirkjunni einsog reyndar síðast líka.

Photo028Ég fór svo í prufusöngferð í ágúst, fyrst til Þýskalands og svo niður til Ítalíu áður en ég flaug til Íslands að byrja æfingar fyrir uppsetninguna okkar á Cavalleria rusticana og Pagliacci í Íslensku óperunni, sem er nýafstaðin. Smelli með mynd af mér sem Lúba tók af mér í San Remo.

Jæja, ég þarf að drífa mig inní óperuhús svo ég sendi bara kæra kveðju heim og vona að allir heima hafi það gott, þrátt fyrir 18% stýrivexti og almenna fjárhagserfiðleika. Í mínum huga hljómar bara klausan okkar í skemmtanabransanum "the show must go on"!!!


... sweet home ...

Þá erum við loksins komin heim eftir allt þetta flakk síðustu mánaðanna og núna er bara framundan grassláttur og almenn aðhlynning að draslinu okkar hérna í Frans. Sprettan er búin að vera feiknagóð, svo maður þarf að halda sig allan við að rúlla sláttuvélinni útum allt öllum stundum.

Keyrslan frá Maribor var stórslysalaus, einsog við var að búast, sem betur fer, en það kom mér svolítið á óvart hvað landslagið þarna í Slóveníu er magnað. Það er ekkert mikið um há fjöll, samt svolítið, en þarna eru hæðir eftir hæðir eftir hæðir. Svolítið svipað og hérna hjá okkur í Provence, en bara margfalt hæðóttara - ef maður getur sagt það. Litbrigðin í náttúrunni voru undurfalleg; allt frá dökk grænum furutrjám og útí ljósgræna, nýlaufgaða aska - sýndist mér (segir maður kannski asktré? - nei, aska, held ég, þó ekki þeir sem maður getur borðað úr - kannski er þetta allt önnur trjátegund - ég er svoddan auli í þessum trjágreiningum). Ég get ímyndað mér að haustin þarna austurfrá séu stórkostlega falleg - með öllum rauðu og gulu litbrigðunum sem bætast þá við.

Hérna hjá okkur hefur Ljúba verið iðin við að gróðursetja ávaxtatré og annað grænt góðgæti, en svo virðist sem villisvínin hérna hafi áttað sig á hvernig hægt er að troða sér undir girðinguna á nokkrum stöðum, með þeim afleiðingum að þau hafa étið töluverðan slatta af rótum og einhverju fleiru - og rótað upp útum allt hjá okkur. Kannski voru þetta ekki bara villisvínin, heldur líka skjaldbökur, sem við höfum af og til staðið glóðvolgar að því að háma í sig melónur og salatblöð. Þær eru friðaðar hérna og maður verður bara að reyna að byggja einhverskonar tálma fyrir þær, sem þær geta samt skriðið undir. Það dugar samt ekkert gegn villisvínunum - þau ryðjast í gegnum hvað sem er og láta einsog þau eigi þetta allt saman!


... og meira frá Maribor


Cosi fan tutte - drengirnirÞriðja sýningin mín á Cosi fan tutte hérna í Maribor er í kvöld og síðasta sýningin er svo á föstudaginn. Okkur hefur verið vel tekið, enda uppfærslan stórskemmtileg og þó svo Slóvenarnir skilji ekki hvert orð er gamanleikurinn svo vel sviðsettur að áhorfendurnir hlægja alltaf á réttu stöðunum og hafa mikið gaman af veseninu á sviðinu. Leikstjórinn er belgískur og heitir Guy Joosten; stórfínn leikstjóri sem ég hef nú unnið fjórum sinnum með og hef alltaf jafn gaman af. Hann leikstýrði meistara Kristni í uppfærslunni á Rómeó og Júlíettu á Metropolitan óperunni og er að gera góða hluti víðsvegar um heim. Hann er einn af þeim sem koma til starfa á fyrsta degi æfinga með fullkláraða hugmynd um hverja einustu senu í verkinu og er ansi harður á að hafa hlutina einsog hans eigin hugmyndir segja til um, en ef fólk er klárt og getur betrumbætt hlutina er hann sveigjanlegur og alltaf tilbúinn til að breyta og bæta. Ég hef skellt hérna með myndum af okkur strákunum saman og svo af stelpunum líka. Sviðsmyndin er hótelanddyri og hugmyndin er að þetta sé hótel í Napólí, þar sem í bakgrunninum má sjá útlínur Vesúvíusar - og þetta er að gerast í nútímanum, kannski á áttunda áratugi síðustu aldar.

Það er erfitt að fastnegla hvað hérna í Maribor er sérstaklega slóvenskt. Ef maður les sér til um sögu staðarins, til dæmis á Wikipedia, er greinilegt að lengst af hafa þýskumælandi herrar ráðið hér lögum og lofum; um 1920 voru 80% Mariborbúa þýskir, en eftir síðari heimstyrjöldina voru þjóðverjarnir flæmdir í burtu og slóvenarnir tóku ráðin. Samt er þýskan það tungumál sem maður kemst best af með í búðum hérna í Maribor. Mér sýnist á alþýðumenningunni að fólk hér sé ótrúlega svipað austurríkismönnum að mörgu leiti. Hérna eru á mörgum sjónvarpsstöðvum í gangi svipuð þjóðlagaprógrömm og má finna í alpahéruðum Þýskalands, Austurríkis og Sviss. Óaðfinnanlega brosmilt fólk spilandi og syngjandi þessi líka mishressilegu hopp-lalla lög með harmónikkur og tírólaklæði. Karlmennirnir ægilega penir og fínir og stelpur með gífurlega ljóslitað hár og barmastórar í stíl stelpnanna sem frægar eru fyrir að þjóna á Oktoberfest.

Cosi fan tutte - stúlkurnarFjallið Pohorje gnæfir yfir borgina og þar eru frábærar skíðabrekkur. Þegar ég kom í lok mars var enn svolítill snjór en hann er farinn núna. Mér skilst að hér séu Slalom mót haldin í tengslum við heimsmeistaramót kvenna á skíðum og svo er verið að reyna að markaðssetja brekkurnar sem gæða skíðasvæði fyrir túrista. Verðlagið hérna er ekki hátt, svo það gæti vel borgað sig að skoða að koma hingað í skíðafrí.

Ég ætlaði að fara í sund í fyrstu vikunni minni hérna, en varð fyrir miklum vonbrigðum með að flestar laugarnar eru þannig gerðar að maður getur einfaldlega ekkert synt. Fólk liggur bara einsog í heitu pottunum og lætur loftbólunuddið sem er útum allar laugar gæla við sig. Þegar ég sá skiltið fyrir gufubaðið ákvað ég að slá til og fara í gufu. Mér til mikillar undrunar var ég skikkaður til að afklæðast gjörsamlega áður en í gufuna væri farið - engar sundskýlur þar. En það var erfiðara að venjast því að karlar og konur voru saman í gufunni - sem er auðvitað ágætt útaf fyrir sig - en getur orðið óþægilegt þegar stórglæsilegt fólk af gagnstæðu kyni er þar allt um kring!

Það eru ekki nema nokkrir dagar eftir af dvölinni hérna og ég held ég eigi eftir að hugsa til fólksins hérna með söknuði. Þessir gömlu Júgóslavar eru mjög almennilegt fólk. Lífsgæðakapphlaupið er að vísu að byrja að leggja þá undir sig, en þeir halda enn margir hverjir í gömlu sósíalísku gildin, sem ég held að sé gott. Vonandi tekst þeim að viðhalda þeim sem lengst. 


Drengur góður!

Hann er einfaldlega orðinn að goðsögn í lifanda lífi - stórglæsilegur fótboltamaður - og hann virðist alltaf vera hógværðin uppmáluð. Maður þorir varla að vona að strákarnir komi vel útúr leiknum í kvöld, þeir hafa ekki verið heppnastir í leikjum á móti frönsku liðunum. En með vængjamenn einsog Giggsa og Ronaldo er nú erfitt að ímynda sér að það standi þeim einhver á sporði. Þessir strákar eru einfaldlega stórkostlegir og unun að horfa á þá spila. Einsog það er sagt á englamálinu "poetry in motion". Þeir minna hvor á sinn hátt á galdramenn einsog Eric Cantona þegar þeir æða upp völlinn á þvílíkum hraða að varnarmenn eiga í fullu fangi með að einfaldlega sjá þá bruna framhjá sér, hvað þá að reyna að stöðva þá! Ég get ekki séð leikinni í beinni, enda verður sýning hjá okkur í Óperunni, en ég verð með mínum mönnum í anda og geri bara ráð fyrir að þeir standi sig vel - einsog þeim er von og vísa. Eftir burstið á Arsenal í deildarbikarnum ætti mórallinn að vera góður og það er vonandi að liðið þurfi ekki á hárþurrkumeðferðinni að halda í hálfleik!


mbl.is Giggs leikur sinn 100. leik í Meistaradeildinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilbrigð sál í hraustum líkama!?!

Arnar SigurðssonRúllupylsumeistaramótið í tennis fór fram í Smáranum í Kópavogi í gærkvöld og Dalli, mágur minn, var svo almennilegur að bjóða mér að vera með. Það var þrælgaman að spila og mér tókst meira að segja að vinna einn leik, sem þá þýddi að ég lenti ekki í neðsta sæti, heldur næst neðsta! Stemmningin var gríðarlega góð og sigurvegarinn, Börkur - ElRey, vann alla sína leiki með glæsibrag! Hann var svo krýndur Rúllupylsumeistari 2008 með pomp og prakt. Uppá veggjum í Smáranum voru svo myndir af þessum líka stórmyndarlega dreng, Arnari Sigurðssyni tenniskappa, sem prýðir þá líka þessa síðu mína.  Það var svo skemmtilegt að geta komist í svolítið keppnisskap að mig dauðlangar að reyna að gera eitthvað svona oftar þegar ég er á þessu flakki mínu um heiminn, en auðvitað verður það erfitt. Það væri nú samt gott að geta náð af sér þessari pínulitlu letivömb sem er því miður framaná mér. Það er bara svo hryllilega leiðinlegt að vera eitthvað að æfa sig inná líkamsræktarstöðvum. Mér finnst miklu meira gaman af því að keppa um leið og ég fæ einhverja líkamlega æfingu.

Það hefur verið mjög gott að geta sungið með góðum félögum mínum, gömlum kunningjum og nýjum líka, í kirkjulegum athöfnum þessa síðustu daga, enda kemst maður í svo allt annað samband við tónlistina í svoleiðis söng. Ég hef ekkert sungið í kór í tæpa tvo áratugi og er núna að prófa það aftur. Það er svo gjörólíkt því að vera alltaf að syngja sem einsöngvari að það tekur svolítið á að þurfa að gíra sig niður í raddstyrk, en er samt feikna gott fyrir sálartetrið. Og sálmarnir eru oft svo mannbætandi að maður hefur bara gott af að syngja þá sem oftast. Og mannsröddin er og verður alltaf það hljóðfæri sem best kemur til skila tilfinningalegum blæbrigðum í tónlist; maður kemst alltaf best í samband við hið einfaldasta en um leið mikilvægasta í lífinu þegar maður syngur í kirkju.


Kominn á klakann - eftir langa fjarveru

Ég er kominn til Íslands og byrjaður að æfa í uppfærslu Íslensku óperunnar á La traviata eftir Giuseppe Verdi. Þar er ég að takast í fyrsta sinn á við hlutverk Giorgio Germont og hlakkar mikið til að sjá hvernig þetta fer allt saman. Meðsöngvararnir í uppfærslunni eru feiknagóðir og fara þar fremst í flokki Sigrún Pálmadóttir í hlutverki Violettu Valery, sem er hin fallna kona sem titillinn vísar til, og Jóhann Friðgeir Valdimarsson í hlutverki Alfredo Germont, sonar Giorgios gamla. Í öðrum hlutverkum eru mestanpart söngvarar sem ég hef aldrei unnið með áður, enda er orðið svo langt síðan ég flutti útí heim að það væri sennilega ómögulegt fyrir mig að þekkja alla þá gæðasöngvara sem hafa byrjað að vinna fyrir sér með gaulinu síðan ég fór. Þó er gæðingurinn Jóhann Smári Sævarsson þarna líka, en við vorum saman við nám í óperuskóla Royal College of Music í London. Mest sem keppinautar, enda vorum við þá að syngja sömu hlutverkin, en núna er ég farinn að sperra mig uppávið og syngja sem barítón og Jóhann Smári heldur sig við sína náttúrulegu bassarödd. Og svo er gaman að sjá að Bragi Bergþórsson er byrjaður að vinna fyrir sér með söngnum, kominn af þessum líka frábæru foreldrum, Bergþóri Pálssyni og Sólrúnu Bragadóttur, báðum frábærum söngvurum.

Það er erfitt fyrir mig að venjast því að tala bara íslensku dags daglega, enda er ég giftur rússneskri konu og við tölum saman á samblandi af rússnesku og ensku, þar sem við bætast orð úr tungumáli þess lands sem við erum í hverju sinni, einsog "stau" fyrir umferðarteppu ef við erum í Þýskalandi, "peage" til að borga hraðbrautartollana í Frakklandi og þar fram eftir götunum. En ég verð að viðurkenna að mér gengur illa að venjast því hvað það eru margir blaða- og fréttamenn við störf hérna núna sem eru beinlínis illa menntaðir í tungumálinu ástkæra og blöðin leyfa sér að birta fréttatexta með hreint ótrúlegum villum. Ég hef lengi fylgst með fréttum á vefsíðu Moggans og hef lengi pirrast yfir því hvað fréttatextarnir þar eru oft uppfullir af stafsetningarvillum og vondu máli, en ég sé núna að þetta er ekkert einsdæmi. Arndís systir fann leiguíbúð fyrir mig hérna niðrí miðbæ Reykjavíkur meðan ég er við störf í Óperunni og ég fæ alltaf af og til Fréttablaðið gegnum bréfalúguna. Þar eru margar góðar greinar og oft merkileg mál rædd, en í sumum tilfellum er réttritun svo ábótavant að mér bregður illilega. Ekkert meira núna í dag en oft áður. Á fimmtugustu síðu Fréttablaðsins í dag er fjallað um Jón Gunnar Geirdal og Pétur Jóhann Sigfússon. Ég kannast ekkert við þá, en get ímyndað mér að um sé að ræða einhverja spéspekinga. Hinsvegar er þar að finna myndatexta þar sem segir að Jón Gunnar sé tilbúinn að leggja fram hjálparhönd ef Ólafi Ragnari vantar nýja frasa! Að "leggja fram hjálparhönd" hefði verið kallað að "bjóða hjálparhönd" held ég, en það er samt ekki svo slæmt - að leggja fram hjálparhönd hljómar vel finnst mér, og sögnin "að vanta" hefði stýrt þolfalli, en ekki þágufalli þegar ég var hérna við störf síðast. En kannski er ég bara svona mikið eftirá og þágufallssýkin er orðin að reglu! Og til að nefna annað dæmi er frétt á annarri síðu Fréttablaðsins í dag þar sem fjallað er um Öryrkjabandalagið og fráför Sigursteins Mássonar eftir ósigur hans í kosningu stjórnar í hússjóð bandalagsins. Þar segir "Þá kemur einnig fram að dæmi séu um að fólk með hreyfihömlun hafi ekki komist í bað vikum þar sem baðherbergjum þeirra hafi ekki verið breytt með hliðsjón af fötlun þeirra". Ég er viss um að þar hefur átt að standa "vikum saman" en ekki bara "vikum". Hinsvegar er ég viss um að það hefur verið um að ræða tölvuinnsláttarmistök - orðið "saman" hefur sennilega bara þurrkast út í tölvuvinnslu fréttarinnar, enda er fréttin að öðru leyti nokkuð vel skrifuð. Og svo er að finna tvær villur á vefsíðu Moggans núna. Önnur er í erlendri frétt sem var skráð klukkan 13:12 þar sem er fjallað um fyrirhuguð hryðjuverk í Þýskalandi. Þar segir "Í kjölfarið hantóku líbönsk yfirvöld sýrlending sem grunaður er um aðild að al-Qaeda". Þar hefði átt að standa "handtóku". Og í íþróttafrétt sem var slegin inn klukkan 14:26 segir að "Íslenska B-landsliði í handknattleik vann öruggan, 32-27, sigur á Portúgölum á Posten-mótinu í Noregi í dag". Sem er auðvitað frábært, en þar hefði átt að standa "Íslenska B-landsliðið".

En mér sýnist að með tilkomu tölvuvinnslu fréttatexta hefur prófarkalestri hrakað. Þegar ég vann uppá gamla Þjóðviljanum með snillingum einsog Merði Árnasyni og Árna Bergmann og prófarkalesurum einsog Elíasi Mar þá hefði þágufallsvillum verið komið fyrir kattarnef hið snarasta og viðkomandi blaðamaður fengið áminningu um ábyrgð okkar gagnvart tungumálinu sem við notum til að tjá okkur. Ég verð nú að viðurkenna að pirringurinn vegna ritvillnanna er aðallega vegna þess hvað Mogginn leyfir sér að birta vonda fréttatexta á vefsíðum sínum. Þar hef ég rekist á villur í hvert sinn sem ég hef verið að skoða fréttirnar á flakki mínu um heiminn og hef alltaf orðið jafn miður mín vegna ónákvæmninnar. Mér finnst að fréttablöð eigi að leggja metnað sinn í að skrifa fréttir á góðri íslensku og rétt stafsettar, svo fólk hafi gott aðhald með tungumálinu.


Taugatrekkjandi fyrirsöngur

ROF_manifesto_2007Ég hef svosem ekkert á móti því að syngja fyrir, en það reynist alltaf vera meira taugastrekkjandi heldur en ég ímynda mér fyrirfram. Maður er svalur og óhræddur allt fram að síðustu mínútunum fyrir fyrirsönginn, en svo fæ ég alltaf smá hnút í magann og stressast rétt áður en ég þarf að syngja. Svo setur maður bara í gír og allt gengur fyrir sig einsog það á að gera. Það er einfaldlega hábölvað að þurfa að gera þetta, en án fyrirsöngs af og til er erfitt að vera ráðinn. Listrænir stjórnendur vilja oft frekar heyra í söngvaranum "in the flesh" heldur en reyna að ráða af upptökum hvernig röddin hljómar í raun og veru.

Nýja umboðsskrifstofan mín skipulagði fyrirsöng fyrir nokkra af sínum söngvurum í Pesaro í gær og líka í síðustu viku, en ég sló til og tók þátt í gær. Rossini óperuhátíðin stendur yfir núna og tækifærið var notað þar eð margir listrænir stjórnendur óperuhúsa voru saman komnir í borginni til að sjá sérfræðingana spreyta sig á leikfimi þessa matglaða snillings. Við Lúba keyrðum héðan að heiman eftir hádegið á miðvikudaginn og komum til Pesaro rétt fyrir miðnætti. Fyrirsöngurinn var svo seinnipartinn í gær og við vorum komin aftur heim í nótt sem leið. Ég söng aríu Hollendingsins fljúgandi, einsog ég geri oftast núna um þessar mundir og svo aríu Alekós eftir Rachmaninoff - frábær tónlist - ekkert alltof strembin raddlega og frábærlega áhrifarík þegar píanistinn er góður - og ég er svo heppinn að Lúba mín er frábær píanisti! Það er allt útlit fyrir að eitthvað gott komi útúr þessu, en maður veit aldrei fyrr en búið er að setja penna á blað og samningur er undirritaður, svo ég bíð bara og sé til.

Í Pesaro gistum við hjá fólki sem er tengt hinum mikla söngmeistara Luciano Pavarotti, en hann býr einmitt í Pesaro - í það minnsta af og til. Mér varð einmitt hugsað til hans í gær þegar ég var að bíða eftir að syngja sjálfur í þessum fyrirsöng. Ef hann hefði þjáðst af sama sviðsskrekk og karl faðir hans, einsog sagan hermir, þá hefði tónlistarheimurinn orðið fátækari fyrir vikið. Karlinn var víst með fína og hljómmikla rödd, en varð svo stressaður þegar hann átti að syngja opinberlega að hann missti alla stjórn á sér og röddinni. Kollegar mínir sem voru að syngja fyrir voru í sumum tilfellum svo rosalega fínir á æfingunni með píanistanum og svo þegar þeir og þær voru að hita röddina upp í búningsherbergjunum að það var stundum ótrúlegt að heyra muninn hvernig þau hljómuðu þegar á sviðið var komið. Stundum voru þau ekki nema skugginn af sjálfum sér. Þetta er skrítin skeppna - stressið!


Heyskapur í sól og blíðu

Við fórum á fætur snemma í dag. Hitinn var ekki nema ca. 25 gráður um áttaleytið, svo það var allt útlit fyrir að það yrði ekkert alltof heitt þegar á daginn liði. Og það varð ekki meira en um 30 gráður um miðjan dag. Alla vegana ákvað ég að verja deginum í að slá sinuna sem er búin að vera að sveiflast þetta í vindinum síðan við komum hingað heim eftir langa veru í Belgíu fyrripart sumarsins. Ég hafði drifið mig í að slá í vor, en eftir það rigndi hérna í nokkra daga í maílok og auðvitað varð úr þessi líka rosa spretta - þegar við komum hingað í júlíbyrjun var grasið orðið hærra en mér í mittishæð. En svo hefur ekkert rignt í sumar, svo þetta er alltsaman uppþornað og orðið að harðri sinu.

Þar eð vélljárinn minn er bilaður og í viðgerð, sem er orðin ansi löng - rúmar tvær vikur, ákvað ég að treysta á Central Park garðsláttuvélina. Þvílíkur unaður til að byrja með! Hún reif þetta illgresi allt í sig einsog ekkert væri og ég hélt að þessi ítalska gæðavél væri til þess gerð að vinna á öllu því sem ég bar hana að - en ég hefði átt að vita betur. Hún gafst upp rétt eftir hádegið! Svo eina lausnin var að reyna að redda þessu með því að skreppa í bæinn (næsti bærinn við þorpið okkar er Brignoles) og fá varahluti snögglega og án vífillenginga - en komst þá að því að það væri dýrara að kaupa nýtt blað til að slá með heldur en að kaupa einfaldlega nýja sláttuvél! Varahlutirnir eru dýrari en nýtt tæki - ótrúlegt! Svo ég keypti einfaldlega nýja sláttuvél fyrir lítinn pening og prófaði hana í seinnipartinn til að geta borið saman við Central Parkinn góða. Ég var nú ekki með háar væntingar. Central Park var búinn að heilla mig svo gjörsamlega að ég bjóst ekki við miklu. En þvílíkur munur! Hún malar einsog heimavanur köttur meðan hún tætir í sig sinuna og illgresið sem óhjákvæmilega er innanum og stoppar ekki við nokkurn hlut; spýtir útúr sér greinum sem eru svo ónærgætnar að vera eitthvað að þvælast fyrir henni og hoppar fimlega yfir grjót og steina sem liggja í felum. Hún er yndisleg! En það eina sem skyggir á gleðina og ánægjuna er að hún er nafnlaus! Hún heitir ekki nokkurn skapaðan hlut! Ég er búinn að vera að kíkja á allar merkingar með henni og það eina sem ég finn er að hún var líka smíðuð á Ítalíu, einsog Central Park, en er svo númer EP 350. En hvað heitir hún? Ég get ómögulega kallað vélina EP 350. -Er á leiðinni að slá með EP 350! Nei, það gengur ekki upp. Hvað ætti ég að kalla hana? Ég er ekki ennþá búinn að finna útúr því.


Stórsöngvari

Það er sérstaklega gaman að sjá að Mogginn tekur eftir stórvirkjum Kristins Sigmundssonar. Hann er frægastur íslenskra óperusöngvara í dag og verðskuldar það sannarlega. Hann er með frábæra rödd með einstakan litblæ, stórfyndinn og sannfærandi leikari og mikill öðlingur. Íslenskir óperuáhugamenn sem hafa einhverja möguleika á að fara til New York og sjá meistarann á sviði Metrópólitan óperunnar ættu að gera það sem oftast!
mbl.is Undir stjórn Domingo
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband