Tíbrártónleikar okkar hjónanna í Salnum

Salurinn í KópavogiVið æfðum okkur í fyrsta sinn í Salnum í dag og ég verð nú að viðurkenna að mér þykir nú þónokkuð mikið til hljómburðarins koma. Það er bara ósköp þægilegt og gott að syngja þarna. Við Ljúba ætlum að vera með tónleika í Salnum sumsé á þriðjudaginn kemur, þann ellefta, en með okkur leikur meistari Kurt Kopecky á píanó. Hann valdi að nota Steinway flygilinn í þessa tónleika, en hann hafði notað Bösendorferinn á tónleikunum með henni Arndísi Höllu núna um daginn. Arndís stóð sig stórvel á sínum tónleikum - var með mikla kólóratúrufimleika þar - og við erum auðvitað að vona að við stöndum okkur sæmilega líka. Ég ætla samt ekkert að fara að reyna fyrir mér í kólóratúrunni - ég lofa því - enda er ég hræddur um að það yrði vandræðalegt!

Prógrammið okkar er að helmingi rússneskt og að hinum helmingnum ítalskt. Fyrst sönglög eftir Rachmaninov og svo aríur úr óperum eftir Tchaikovksíj og lokasenan úr Eugene Onegin. Í seinni hlutanum verða svo sönglög eftir Tosti og óperuaríur eftir Verdi og dúett úr Il trovatore. Meiri upplýsingar um þessa tónleika eru á www.salurinn.is. Sumsé alltsaman útlenskt, sem ég held sé bara gott og ábyggilega áhugavert fyrir tónlistarunnendur á höfuðborgarsvæðinu sem eru vanir að heyra alltaf einhver íslensk sönglög á flestum einsöngstónleikum. En það verður alla vegana mjög ánægjulegt fyrir okkur að fást við allt þetta drama og rómantíkina - passar okkur mjög vel. Við Ljúba byrjum bara að bæta íslensku framburðinn hennar svo að þegar við höldum tónleika hérna næst getum við sungið dúett úr einhverri íslenskri óperu - nú eða þá "Nú andar suðrið".

Við fengum smá prufukeyrslu á þessu prógrammi okkar þegar okkur bauðst að halda tónleika í Grindavíkurkirkju núna á mánudaginn og það var auðvitað yndislegt. Grindvíkingar tóku okkur feiknavel og ég vona að þetta framtak verði til þess að tónleikahald í kirkjunni hjá þeim taki kipp og verði litskrúðugt. Mér skildist að Sigvaldi Kaldalóns hafi samið stórann hluta af sínum perlum þegar hann var læknir í Grindavík og ég er ekki frá því að það væri stórmerkilegt og vel þess virði að halda vel við minningu hans með fræknu tónleikahaldi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband