Óperukveðja

Ég hef verið með fiðring í fingrunum að geta bloggað sjálfur eftir að hafa fylgst með félögum mínum blogga lengi vel og einungis gert athugasemdir við þeirra skrif, án þess að hafa frumkvæðið sjálfur. Þetta hefur reynst mér næstum óbærilegt hingaðtil og uppá síðkastið hefur mér æ oftar hugsað til þess að hugmyndin að því að blaðra sjálfur á mínu eigin bloggi sé í sjálfu sér ekkert svo fjarstæðukennd. Sjáum til, kannski gefst ég upp fljótlega og þetta verður þá ekkert annað en blaður útí bláinn.

resize_image[4]Ég er um þessar mundir að syngja í óperuuppfærslu í Gent á Spaðadrottningunni eftir Pjotr Tsjækovskí, þar sem ég er í hlutverki greifans Tomskí - nafnið passar vel! - sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Hinsvegar er frægasta söngkona Belga, Rita Gorr, í hlutverki greifynjunnar - og það er merkilegt - því hún er núna 81 árs og þetta er síðasta óperuuppfærsla hennar. Hún kveður hérmeð heim óperunnar og stígur ekki framar á svið í óperuhlutverki. Hún ákvað fyrir löngu síðan að þetta yrði hennar svanasöngur, en það breytir því hinsvegar ekki að hún á í stökustu vandræðum með að sætta sig við að hérmeð sé ferill hennar sem flytjanda á enda. Búinn. Auðvitað var þetta hennar eigin ákvörðun, en ef heilsan leyfði það, þá er ég viss um að hún myndi halda áfram að syngja opinberlega. Á sýningunni í gær veitti borgarstjórinn henni heiðursmerki borgarinnar, enda er hún fædd í Gent, og áheyrendurnir í óperunni voru ósparir á klappið og kveðjurnar, hróp og köll, bravó, brava! Við komum framá svið í lokin í pörum og ég leiði hana alltaf mér við hlið og í gær voru fagnaðarlætin gríðarleg - um leið og við birtumst risu allir áhorfendur úr sætum sínum og hrópuðu og klöppuðu. Sannarleg "standing ovation" sem virtist aldrei ætla að enda. Þessi elskulega dama tók við kveðjum áheyrendanna klökk og djúpt snortin og eftirá hélt hún áfram að segja okkur, yngri kollegum sínum, að við verðum að grípa öll þau tækifæri sem okkur bjóðast til að vinna af hörku, standa okkur vel og njóta þessa stórkostlega starfs sem við höfum valið okkur. "Profitez de votre jeunesse" var meðal þess sem hún sagði okkur. Mér finnst ég alltaf eldgamall, enda hefur ævisagan mín hingaðtil verið frekar fjölskrúðug, svona í samanburði við marga aðra, en auðvitað er ég ekki nema fertugur og í samanburði við þessa ágætis konu er ég ekki nema hálfnaður - ennþá gætu bestu árin verið framundan, hver veit! En ég held samt að hún þurfi ekki að líta til baka með alltof mikilli eftirsjá. Það eru ekki margir söngvarar sem öðlast viðlíka frama og hún gerði á sínum tíma - hljóðritaði með Solti og fleiri snillingum - og söng flestar af bestu rullunum í sínu fagi og það í bestu óperuhúsunum á sínum 58 ára ferli. En það er samt erfitt að kveðja. Ég get vel skilið það. Hvað tekur svo við? Eftir að hafa eytt öllum sínum starfsárum á óperusviðinu getur verið erfitt að sætta sig við að hætta þessu brölti og taka sér frí frá starfinu.

En tilfellið er að það er ekki alltaf undir okkur komið hvort við höfum einhverja vinnu eða ekki - aðrir ákveða það oft fyrir okkur. En það er augljóst að meðan maður hefur einhverja vinnu og fær tækifæri til að gera það sem maður fær ómælda ánægju af er best að gleyma því ekki að athafnir okkar í dag verða minningar elliáranna. Það þýðir að best sé að gera ekkert með hangandi hendi - leggja sig vel fram. Það er margt sem ég sé eftir að hafa gert, eða látið ógert, en mér sýnist að lærdómurinn af að kynnast þessari merku konu geti hugsanlega verið sá að það sé best að einbeita sér að því sem vel hefur farið. Að reyna að búa til og eiga góðar minningar. Vonandi tekst það!


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Velkominn í bloggheim félagi,

Óli Kjartan

Óli Kjartan (IP-tala skráð) 1.7.2007 kl. 20:24

2 Smámynd: Hrannar Björn Arnarsson

Velkominn í blogheima ! Gaman að sjá þig poppa hér upp eftir öll þessi ár. Netið smækkar heimin eða stækkar öllu heldur heim mans sjálfs. Gangi þér áfram vel !

Hrannar Björn Arnarsson, 1.7.2007 kl. 20:52

3 identicon

Til lukku með síðuna félagi. Það er synd að þín fagra útvarpsrödd skuli ekki fá að njóta sín í netheimum en þetta verður að duga í bili.

Bjarni Thor (IP-tala skráð) 2.7.2007 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband